- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Áttum skilið að vinna, segir Ágúst Þór stoltur

Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals.
- Auglýsing -

„Ég er gríðarlega stoltur af liðinu eftir leikinn í kvöld. Við vorum að leika við næsta efsta liðið í spænsku deildinni og vorum með yfirhöndina nær allan leikinn og áttum skilið að vinna,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Íslandsmeistara Vals við handbolta.is í kvöld eftir jafntefli Vals við Málaga Costa del Sol, 25:25, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik. Leikið var á Spáni. Síðari viðureignin fer fram á heimavelli Vals eftir viku.

Slæmt að missa út Hildi

„Það var slæmt fyrir okkur að missa Hildi [Björnsdóttur] út með þrisvar sinnum tvær snemma í síðari hálfleik, ekki síst vegna þess að Elísa [Elíasdóttir] gat ekki farið með okkur út. Staðan var því aðeins þynnri í miðri vörninni þegar á leið leikinn. Varnarleikurinn var samt góður. Okkur tókst að þétta raðirnar og gera leikmönnum Málaga mjög erfitt fyrir.“

Frábær sóknarleikur

„Sóknarleikurinn var mjög góður allan tíma og afar vel út færður hjá stelpunum. Fyrir vikið sköpuðu þær sér urmul af dauðafærum en fóru á stundum illa með færin. En heilt yfir var frammistaðan alveg frábær,“ sagði Ágúst Þór móður og másandi eftir leikinn. Hann var að vanda líflegur á hliðarlínunni.

Ágúst Þór undirstrikar að úrslitin séu mjög góð því um hreint atvinnukvennalið sé að ræða hjá Málaga Costa del Sol sem hafi á að skipa landsliðskonum, bæði spænskum og portúgölskum.

Héldu yfirvegun í erfiðri höll

„Höllin var líka mjög erfið. Um þúsund áhorfendur voru. Þeir tóku ríkan þátt í leiknum. Valsstelpurnar héldu yfirvegun og náðu að jafntefli á mjög erfiðum útivelli,“ segir Ágúst Þór og bætir við að jafntefli gefi Valsliðinu byr undir báða vængi fyrir síðari viðureignina á næsta laugardag.

Getum komist áfram

„Ég er sannfærður um það að ef okkur tekst að fylla N1-höllina á laugardaginn þá getum við náð góðum úrslitum og komist áfram gegn liðinu sem fyrirfram er talið það sigurstranglegasta í keppninni,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson við handbolta.is í kvöld.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -