- Auglýsing -
- Auglýsing -

Auðvitað stefnir maður á að komast í landsliðið

Daníel Freyr Andrésson með augu á knettinum í leik við Hauka í haust. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

„Ég er fyrst og fremst ánægður með að vera kominn heim og til liðs við FH. Það er virkilega gaman að sjá hversu vel hlutirnir hafa þróast hjá félaginu síðan ég lék síðasta með FH-liðinu,“ sagði Daníel Freyr Andrésson markvörður FH í samtali við handbolta.is. Daníel Freyr flutti heim í sumar eftir að hafa leikið með dönsku og sænskum félagsliðum í níu ár, að leiktíðinni 2019/2020 undanskilinni þegar hann stóð vaktina í marki Vals.


Daníel Freyr, sem er FH-ingur að upplagi og varð m.a. Íslandsmeistari með liði félagsins 2011, hefur komið eins stormsveipur inn í FH-liðið og átt hvern stórleikinn á fætur öðrum, jafnt í deildinni sem og í Evrópubikarkeppninni.

Skemmtileg blanda

„Við erum með mjög skemmtilegt lið sem er blanda af yngri og eldri leikmönnum. Ég mjög ánægður með hópinn. Að undanskildum leiknum við Stjörnuna þá hafa leikir okkar verið nokkuð góðir og sumir mjög góðir. Reyndar var óskemmtilegt að tapa fyrir Val í annarri umferð. Á móti kemur að það var ekki hægt að reikna með að við ynnum alla leiki í deildinni,“ sagði Daníel Freyr þegar útsendari handbolta.is hitti hann að máli á föstudagskvöldið í Kaplakrika að lokinni viðureign FH og ÍBV. Daníel fór á kostum í þeim leik.

Fín byrjun

„Byrjunin hefur verið fín hjá okkur. Við erum það sem við viljum vera í Olísdeildinni, þ.e. í toppbaráttu og síðan bætist Evrópukeppnina við þar sem okkur hefur gengið mjög vel.“

Daníel Freyr Andrésson á vaktinni í heimaleiknum við RK Belgrad á dögunum. Daníel fór hamförum í síðari viðureign liðanna ytra fyrir viku. Mynd/J.L.Long

Mikill meðbyr með FH

Daníel Freyr sagði umhverfið hjá FH vera mjög gott og eins og hann hafði reiknað með enda hafi hann fylgst vel með hér heima á síðustu árum þótt hann væri að leika utan lands.

„Ég vissi vel að það væri mikil stemning í klúbbnum, mikill meðbyr í starfinu. Ég get þar af leiðandi ekki sagt að eitthvað hafi komið mér á óvart.

Frábær aðstaða

Aðstaðan er misjöfn hjá félögunum á Norðurlöndunum. Ég hef ekki verið hjá félagi sem er með betri aðstöðu fyrir lyftingar en þá sem FH hefur að ógleymdu Kaplakrikasvæðinu sem er frábært og býður upp á marga möguleika til æfinga. Aðalamunurinn er kannski umfjöllun um leiki og mæting á leikina þótt vissulega hafi hún verið góð hjá okkur FH-ingum á fyrstu vikum tímabilsins.“

Landsliðið?

Nokkuð hefur verið rætt um hvort Daníel Freyr ætti heima í landsliðinu eða ekki. Hann var alltént ekki valinn í hópinn sem kemur saman til æfinga á morgun og býr sig undir tvo vináttuleiki við Færeyinga sem fram fara í Laugardalshöll á föstudaginn og á laugardaginn.

Daníel Freyr segir það ekki hafa komið sér á óvart að vera ekki valinn. Hann hafi ekki átt fast sæti í landsliðinu undanfarin ár og ekki tekið þátt í stórmótum.

Ekki svekktur

„Auðvitað stefnir maður á að komast í landsliðið en ég get ekki sagt að ég sé svekktur yfir að hafa ekki verið valinn að þessu sinni. Ég er 34 ára gamall og hef aldrei farið á stórmót svo maður reiknar ekki beinlínis með að vera valinn í hvert sinn sem landsliðshópur er kynntur. Ég verð hinsvegar klár í slaginn ef kallið kemur,“ sagði Daníel Freyr Andrésson léttur í bragði í samtali við handbolta.is.

Þess má geta að Daníel Freyr var síðast í æfingahóp landsliðsins í mars á síðasta ári vegna umspilsleikja við Austurríki um sæti á HM.

Tengt efni:

Stuðningsmenn Guif kvöddu Daníel Frey

Guðmundur Þórður kallar á 21 leikmann til æfinga

Karlandsliðið kemur saman um miðjan mars

Lagt á ráðin fyrir umspilsleikina

Rútuferðirnar styttast töluvert

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -