- Auglýsing -
- Auglýsing -

Aukin spenna hlaupin í botnbaráttuna – HK og Selfoss unnu sína leiki

Sigurjón Guðmundsson markvörður HK hefur átt afar góða leiki með HK í Olísdeildinni. Einn þeirra var í kvöld gegn Stjörnunni. Mynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -

Enn meiri spenna hljóp í neðri hluta Olísdeildar karla í kvöld þegar tveir síðustu leikir 10. umferðar fóru fram. Neðsta lið deildarinnar, Selfoss, gerði sér lítið fyrir og lagði Hauka í Sethöllinni á Selfossi, 30:28. Þetta var fjórði tapleikur Hauka í röð.

Selfoss situr reyndar ennþá í 12. og neðsta sæti en er aðeins stigi á eftir Stjörnunni sem virðist heillum horfin um þessar mundir. Stjarnan tók sæti HK í 11. sæti eftir að hafa tapað fyrir Kópavogsliðinu, 28:27, í Kórnum. Sanngjarn sigur HK-inga sem komnir eru með sjö stig í áttunda sæti deildarinnar.


Víkingur og Grótta hafa síðan sex stig í níudna og tíunda sæti. Ljóst er að ekkert er hægt að bóka keppni liðanna í neðri hluta deildarinnar þegar keppni er nærri því hálfnuð í Olísdeild karla. Ellefta umferð fer að mestu leyti fram á miðvikudag og fimmtudag í næstu viku.

Selfyssingar öflugir í síðari hálfleik

Selfyssingar sýndu mikinn baráttudug í síðari hálfleik í kvöld gegn Haukum. Þeir voru fimm mörkum undir eftir fyrri hálfleik, 17:12. Selfossliðið lét ekki hug falla heldur sneru leikmenn bökum saman og voru búnir að jafna metin, 24:24, þegar 12 mínútur voru til leiksloka. Á æsispennandi endaspretti voru heimamenn öflugir. Alexander Hrafnkelsson varði allt hvað af tók í markinu meðan lítið var varið hinum megin vallarins og ljóst að Haukar söknuðu Arons Rafn Eðvarðssonar.

Unnu fyrir sigrinum

HK-ingar unnu einnig vel fyrir sínum stigum í viðureign við Stjörnuna í Kórnum þótt litlu mætti muna að þeir spiluðu rassinn úr buxunum á síðustu mínútum. Baráttugleðin skein af leikmönnum HK meðan Stjörnumenn virtust ekki vera eins til í tuskið. Þess utan varði Sigurjón Guðmundsson allt hvað af tók í marki HK meðan kollegar hans hinum megin vallarins náðu sér ekki á strik.

Hamur rann á Sigurjón

Eftir jafna stöðu í hálfleik, 16:16, náðu Stjörnumenn tveggja marka forskoti, 17:19. Þá var komið að Sigurjóni markverði. Hann hrökk í mikið stuð. Með hans aðstoð sneru HK-ingar leiknum sé í hag og virtust vera í góðum málum sex mínútum fyrir leikslok með þriggja marka forskot, 27:24, gegn daufum Stjörnumönnum. Þá tóku við fjórar sóknir í röð hjá HK þar sem illa var farið með tækifærin. Heimaliðinu til bjargar þá voru gestirnir úr Garðabæ einkar lánlausir og tókst ekki að færa sér stöðuna í nyt. Niðurstaðan, 28:27, fyrir HK.

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.


Selfoss – Haukar 30:28 (12:17).
Mörk Selfoss: Hannes Höskuldsson 8, Einar Sverrisson 6/2, Sölvi Svavarsson 5, Alvaro Mallols Fernandez 3, Sverrir Pálsson 2, Tryggvi Sigurberg Traustason 2, Sæþór Atlason 2, . Gunnar Kári Bragason 2.
Varin skot: Alexander Hrafnkelsson 10, 47,6% – Vilius Rasimas 6/1, 27,3%.
Mörk Hauka: Þráinn Orri Jónsson 7, Össur Haraldsson 6/2, Guðmundur Bragi Ástþórsson 6, Geir Guðmundsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 3, Guðmundur Hólmar Helgason 2, Ólafur Ægir Ólafsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 6, 19,4% – Ari Dignus Maríuson 1, 25%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

HK – Stjarnan 28:27 (16:16).
Mörk HK: Sigurður Jefferson Guarino 7, Hjörtur Ingi Halldórsson 4/2, Haukur Ingi Hauksson 3, Elías Björgvin Sigurðsson 2, Kári Tómas Hauksson 2, Jón Karl Einarsson 2, Hafsteinn Óli Berg Ramos Rocha 2, Aron Gauti Óskarsson 1, Kristófer Ísak Bárðarson 1, Kristján Ottó Hjálmsson 1, Benedikt Þorsteinsson 1, Styrmir Máni Arnarsson 1, Atli Steinn Arnarson 1.
Varin skot: Sigurjón Guðmundsson 16/1, 37,2%.
Mörk Stjörnunnar: Pétur Árni Hauksson 8, Starri Friðriksson 7/1, Þórður Tandri Ágústsson 4, Tandri Már Konráðsson 3, Hergeir Grímsson 2, Egill Magnússon 2, Jón Ásgeir Eyjólfsson 1.
Varin skot: Adam Thorstensen 10, 29,4% – Sigurður Dan Óskarsson 3, 42,9%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Staðan í Olísdeildum og næstu leikir.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -