Íslendingaliðið Balingen-Weilstetten er nú orðið gulltryggt um að endurheimta sæti í þýsku 1. deildinni í handknattleik karla á næstu leiktíð. Eftir sigur á Coburg á útivelli í kvöld, 30:28, hefur Balingen níu stiga forskot á næstu lið þegar fjórar umferðir, átta stig, eru eftir.
Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk, þar af eitt úr vítakasti, fyrir Balingen að þessu sinni. Daníel Þór Ingason átti tvær stoðsendingar og eitt markskot sem geigaði.
Tumi Steinn Rúnarsson skoraði fimm af mörkum Coburg og átti auk þess þrjár stoðsendingar. Coburg er í 10. sæti af 20 liðum með 33 stig.
Ekkert mark
Örn Vésteinsson Östenberg skoraði ekki mark fyrir TuS N-Lübbecke í eins marks tapi liðsins á heimavelli, 28:27, þegar leikmenn Nordhorn komu í heimsókn.
TuS N-Lübbecke er í fjórða sæti deildarinnar og er í keppni við Eisenach og Dessauer um að fylgja í kjölfarið að Balingen upp í efstu deild. (Staðan er neðst í greininni)
Enn eitt tapið
Sveinn Andri Sveinsson er fjarverandi vegna meiðsla eins og síðustu leikjum og lék þar af leiðandi ekkert með Empor Rostock í enn einum tapleiknum. Að þessu sinni hafði Ludwigshafen betur gegn liði hafnarborgarinnar, 36:27.
Úrslitin verða strikuð út
Úkraínska meistaraliðið HC Motor tapaði með þrigga marka mun í heimsókn Elbflorenz í Dresden, 30:27. Roland Eradze er aðstoðarþjálfari HC Motor út leiktíðina eins og handbolta.is sagði frá fyrr í vikunni þá rær Roland á önnur mið. Gintaras Savukynas er þjálfari liðsins. HC Motor er gestalið í deildinni og verða úrslit leikja liðsins strikuð út áður en deildarkeppnin verður gerð upp í vor.
Fyrrverandi Akureyringur með sjö
Örvhenta skyttan Mindaugas Dumcius, sem lék með Akureyri handboltafélagi fyrir nokkrum árum, var markahæstur hjá Elbflorenz með sjö mörk. Hann er jafnframt leikmaður landsliðs Liháen sem fyrrnefndur Savukynas þjálfar samhliða HC Motor.