„Þetta bar brátt að,“ segir Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik spurður út í vistaskipti hans á miðju keppnistímabili en á milli jóla og nýárs þá skrifaði Seltirningurinn undir samning við HC Erlangen, samning sem tók gildi í upphafi þessa árs. Viggó hafði leikið með Leipzig í hálft þriðja ár og var með gildan samning fram til ársins 2027.
Leita allra leiða
Viggó segir að forráðamenn HC Erlangen leiti allra leiða til að koma liðinu upp úr fallsæti þýsku 1. deildarinnar. Þar af leiðandi hafi þeir lagt fram tilboð til Leipzig um kaup snemma í desember.
Leggja allt í sölurnar
„Viðræður hófust á milli félaganna sem lauk með samningi á milli þeirra. Í framhaldinu hófust samningaviðræður á milli mín og Erlangen sem leiddi einnig til samkomulags. Erlangen er í slæmri stöðu og þarf að leggja allt í sölurnar til þess að snúa gengi sínu við þegar deildarkeppnin hefst aftur eftir HM,“ segir Viggó samtali við handbolta.is sem nánar má hlusta á í myndskeiði hér fyrir ofan.
Viggó segir ljóst að hann er að fara í afar krefjandi verkefni hjá Erlangen sem hefur aðeins skrapað saman fimm stigum í fyrstu 15 leikjum í deildinni í vetur. Nítján leikir standa eftir til að snúa vörn í sókn.
Of gott til að falla
„Það er ekkert sjálfgefið að liðið haldi sæti sínu. En til að freista þess þá sækir liðið mig og ætlar sér að bæta fleiri leikmönnum við sig til að vera áfram í efstu deild. Að mínu mati er HC Erlangen alltof gott lið og félag til þess að falla niður um deild. Allt er til alls hjá félaginu.
Út á við er það kannski sérstakt að ég taki þennan slag en um leið heillandi fyrir mig að félagið vildi gera allt til þess að sækja mig. Ég hef ekki trú á öðru en að okkur takist að snúa genginu við,“ sagði Viggó sem er spenntur fyrir verkefninu sem stendur fyrir dyrum.
Þekkja ekkert annað
HC Erlangen, sem er frá nágrenni Nürnberg í suðurhluta Þýskalands, hefur átt sæti í efstu deild þýska handknattleiksins í áratug.
„Menn þekkja ekkert annað en að vera í efstu deild. Fjárhagurinn er sterkur, með góða keppnishöll og dyggan hóp áhorfenda.
Leikmannahópurinn er fínn og þar af leiðandi á liðið ekki að vera í þeirri stöðu sem það er. Með komu minni og mögulega fleiri leikmanna tekst okkur vonandi að snúa vörn í sókn,“ segir Viggó Kristjánsson landsliðsmaður í handknattleik og verðandi leikmaður HC Erlangen í Þýskalandi.
Staðan í þýsku 1. deildinni: