„Þetta var frábær leikur og virkilega gaman að spila þennan leik. Varnarleikurinn var mjög góður og markvarslan einnig og sóknarleikurinn gekk eins og smurð vél. Bara eins og fullkominn leikur,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, annar markvörður íslenska landsliðsins í samtali við handbolta.is eftir tíu marka sigur Íslands á Ísrael, 30:20, í undankeppni EM í handknattleik karla í Tel Aviv í kvöld.
„Ísraelsmenn voru svipaðir og við áttum von á. Þeir náðu kannski ekki að sýna allar sínar bestu hliðar eftir að hafa verið að spila líka í gær,“ sagði Viktor Gísli ennfremur spurður hvort Ísraelsmenn hafi verið veikari en leikmenn íslenska liðsins hafi átti von. Segja má að það hafi sannast sem oft er sagt, enginn leikur betur en andstæðingurinn leyfir.
„Ísraelsmenn fengu að leika mjög langar sóknir og voru fljótir að refsa okkur ef við héldum ekki einbeitingu. En yfirhöfuð þá gerðum við vel í að halda einbeitingunni og leyfa þeim ekki að svæfa okkur. Við héldum okkar áætlun frá upphafi,“ sagði Viktor Gísli.
Undirbúningur fyrir leikinn var stuttur og laggóður og hluti liðsins náði ekki æfingu eftir ferðina. Viktor Gísli var á meðal þeirra sem kom í síðasta hópnum til Tel Aviv upp úr miðnætti í gær. „Það er kannski uppskriftin að góðum leik,“ sagði Viktor Gísli léttur í bragði en hann varði 11 skot á 45 mínútum af 26 skotum sem hann fékk á sig.
Næsti leikur íslenska landsliðsins verður við Litáen í Vilnius. Íslenski hópurinn fer eldsnemma í fyrramálið með beinu flugi frá Tel Aviv til Vilnius í næst síaðsta leikinn í undankeppninni. „Þetta er mjög gott veganesti fyrir næsta leik,“ sagði Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður í samtali við handbolta.is í kvöld.