- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Baráttusigur Hauka að Varmá

Skarphéðinn Ívar Einarsson og Guðmundur Hólmar Helgason leikmenn Hauka. Ljósmynd/Eyjólfur Garðarsson
- Auglýsing -


Haukar báru sigur úr býtum gegn Aftureldingu, 29-26, að Varmá í kvöld í fyrsta leik tólftu umferðar Olísdeildar karla. Staðan í hálfleik var 14-13, gestunum úr Hafnarfirði í vil. Fyrir leikinn var Afturelding í 2. sæti deildarinnar með 17 stig líkt og topplið FH-inga. Haukar sátu í 5. sæti með 12 stig. Með sigrinum eru þó Haukar áfram í sama sæti, nú með 14 stig, einu stigi minna en Fram, sem á leik til góða.

Mosfellingar byrjuðu betur

Það voru heimamenn í Aftureldingu sem byrjuðu leikinn af krafti í kvöld, komust í 3-0 og þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var staðan 6-2. Sterk vörn og markvarsla einkenndi leik Mosfellinga í upphafi, m.a. voru 6 skot varin um miðbik fyrri hálfleiks. Hafnfirðingar spyrntu þó frá sér af krafti og svöruðu með eigin 6-2 kafla. Staðan 8-8 í Mosfellsbæ þegar 8 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Í stöðunni 9-8 fyrir Aftureldingu komu fjögur Haukamörk í röð og höfðu Haukar undirtökin fram að lokum fyrri hálfleiks, 13-14 fyrir gestina í hálfleik.

Haukar skrefi á undan

Í síðari hálfleik var talsvert jafnræði með liðunum, aðeins eins til tveggja marka munur lengi vel en Haukar ávallt skrefi á undan. Afturelding náði þó reglulega að jafna leikinn í síðari hálfleik, meðal annars úr stöðunni 19-21 í 21-21 um miðjan síðari hálfleik, en náði ekki að snúa leiknum sér í hag á ný.

Jakob Aronsson kom Haukum þremur mörkum yfir, 27-24, þegar sex mínútur voru til leiksloka. Mosfellingar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en náðu aðeins að minnka muninn í tvö mörk, 25-27 og 26-28. Þráinn Orri Jónsson tryggði að lokum þriggja marka sigur Hauka þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum.

Næstu leikir í tólftu umferð Olísdeildar karla fara fram á fimmtudag. Eins og áður hefur komið fram var leiknum í kvöld flýtt vegna vegna ferðar Hauka til Aserbaísjan í 32-liða úrslitum Evrópubikarkeppninnar.

Staðan í Olísdeildum.

Mörk Aftureldingar: Birgir Steinn Jónsson 9, Ihor Kopyshynskyi 5, Þorvaldur Tryggvason 4, Árni Bragi Eyjólfsson 3, Kristján Ottó Hjálmsson 3, Stefán Magni Hjartarson 1, Harri Halldórsson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 14/1, 33,3%.


Mörk Hauka: Skarphéðinn Ívar Einarsson 7, Freyr Aronsson 4, Þráinn Orri Jónsson 4, Birkir Snær Steinsson 3, Össur Haraldsson 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Adam Haukur Baumruk 2, Geir Guðmundsson 1, Andri Fannar Elísson 1, Jakob Aronsson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 6, Vilius Rasimas 2.

Tölfræði HBStatz.

Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -