Stjarnan hefur samið við ungverska miðjumanninn Rea Barnabas, til eins árs um að leika með karlalið félagsins í handknattleik. Barnabas er 23 ára gamall og kemur frá ungversku bikarmeisturunum Pick Szeged. Með liðinu leikur m.a. Janus Daði Smárason landsliðsmaður.
Barnabas hefur alist upp í herbúðum Pick Seged og hefur þar af leiðandi þróað leik sinn hjá félaginu. Hann hefur á undanförnum árum verið hluti af bæði aðal- og varaliði félagsins. Rea er fjölhæfur leikmaður sem aðallega spilar sem miðjumaður, en getur einnig leyst stöðu skyttu, segir í tilkynningu Stjörnunnar í dag.
Stjarnan mætir rúmenska liðinu CS Minaur Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar 30. eða 31. ágúst ytra og 6. eða 7. september í Hekluhöllinni. Sigurliðið tekur sæti í riðlakeppninni.
Hvort viðureign Stjörnunnar og Fram í Meistarakeppni HSÍ verður afstaðin fyrir leikina í forkeppni Evrópudeildarinnar liggur ekki fyrir enda sumarleyfi á skrifstofu HSÍ.