Benedikt Gunnar Óskarsson var maður leiksins í gær þegar Kolstad vann Kristiansand, 37:25, á heimavelli í norsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gær. Benedikt Gunnar hefur ekki fengið mörg tækifæri í síðustu leikjum norsku meistaranna. Hann nýtti tækifærið til fulls í gær og skoraði m.a. átta mörk, þar af tvö úr vítaköstum.
Markskot Benedikts Gunnars voru 10. Hann gaf þrjár stoðsendingar í þessum örugga sigri liðsins á heimavelli.
Sveinn Jóhannsson lét einnig til sín taka. Auk þess að verjast vel og vera einu sinni vikið af leikvelli skoraði Sveinn þrjú mörk úr þremur skotum. Þriðji íslenski landsliðsmaðurinn, Sigvaldi Björn Guðjónsson fyrirliði Kolstad, skoraði eitt mark eftir hraðaupphlaup.
Torbjørn Bergerud markvörður Kolstad og norska landsliðsins stóð sannarlega fyrir sínu og varði 15 skot.
Kolstad er öðru sæti norsku úrvalsdeildarinnar með 20 stig eftir 11 leiki. Elverum er efst með 21 stig. Stöðuna í norsku úrvalsdeildinni og í fleiri deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.
Janus Daði kemur í heimsókn
Næsti leikur Kolstad verður á miðvikudaginn gegn Pick Szeged frá Ungverjalandi. Með liðinu leikur Janus Daði Smárason sem varð þrefaldur meistari með Kolstad vorið 2023.