Bergischer HC, sem Arnór Þór Gunnarsson þjálfar í samvinnu við Markus Pütz, jók forskot sitt í þýsku 2. deildinni í gær þegar liðið vann HC Elbflorenz, 30:22, á útivelli. Á sama tíma gerði GWD Minden, sem er í öðru sæti, jafntefli við TuS N-Lübbecke í grannaslag, 31:31.
Tjörvi Týr Gíslason skoraði eitt mark og var einu sinni vikið af leikvelli í Dresden í gær í átta marka sigri Bergischer HC.
Eyjamaðurinn Arnór Viðarsson skoraði ekki mark í leiknum.
Bergischer HC er sem fyrr segir í efsta sæti 2. deildar, sjö stigum á undan GWD Minden. Minden-liðið á leik til góða eins og Hüttenberg sem er í þriðja sæti níu stigum á eftir toppliðinu. Tvö efstu liðin færast upp í 1. deild í vor. Leiknar verða 34 umferðir.
Skoraði þrjú mörk í sigurleik
Daníel Þór Ingason skoraði þrjú mörk og átti eina stoðsendingu í góðum sigri Balingen-Weilstetten, 21:18, á heimavelli gegn TuS Ferndorf.
Balingen-Weilstetten hefur 33 stig stig í pokahorninu að loknum 26 leikjum og er í fjórða sæti.
Staðan í 2. deild: