- Auglýsing -
- Auglýsing -

Besti leikur Hauka fleytti þeim í undanúrslit – myndir

Guðmundur Bragi Ástþórsson sneri til baka eftir meiðsli. Hér er hann að komast á auðan sjó framhjá Jakobi Martin Ásgeirssyni. Mynd/J.L.Long
- Auglýsing -

Haukar eru þriðja liðið sem tryggir sér sæti í undanúrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla í handknattleik á eftir ÍBV og Stjörnunni. Haukar unnu stórleikinn í Hafnarfirði í kvöld gegn FH, 33:29, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14.

Undanúrslit Poweradebikarsins verða í Laugardalshöll fimmtudaginn 7. mars. Fjórða og síðasta viðureign átta liða úrslita fer fram á miðvikudaginn þegar Valur og Selfoss eigast við.

Þetta er annað árið í röð sem Haukar ná sæti í undanúrslitum. FH hefur ekki náð í undanúrslit frá árinu 2019.

FH-ingar voru skrefi og tveimur á eftir öflugum Haukum í kvöld. Ef einhverntímann var tími fyrir Haukaliðið að eiga sinn besta leik á tímabilinu þá var það í kvöld og það tókst því svo sannarlega. Þeir léku frábæran sóknarleik sem vörn FH réði aldrei við auk þess að vera með góðan varnarleik til viðbótar við markvörslu sem vart varð vart við hjá FH-liðinu.

FH skoraði tvö – Haukar svöruðu með fimm

FH-ingar skoruðu tvö fyrstu mörkin og virtust með byr í seglum enda með fleiri stuðningsmenn á Ásvöllum en heimaliðið. Haukar létu sér fátt um finnast og svöruðu með fimm mörkum í röð. Sóknarleikur FH var hægur og miðjumenn Hauka voru með öll ráð í hendi sér þar sem Þráinn Orri Jónsson fór hamförum. Sóknarleikur Hauka var afar hraður og skemmtilegur. Eftir ríflega 14 mínútur tók Sigursteinn Arndal þjálfari FH leikhlé. Haukar voru fimm mörkum yfir, 9:4.

Eins marks munur

Guðmundur Bragi rölti í gegnum opna vörn Hauka og skoraði 12:9, þegar réttar 10 mínútur voru til leiksloka. FH-ingar voru þá komnir í 5/1 vörn eftir leikhléið. Hún fór fljótlega að bíta og eftir 22 mínútur tók Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka leikhlé. Forskotið hafði farið úr fimm mörkum niður í eitt, 12:11, á átta mínútum.

Takmörkuð markvarsla

Haukar birtu frá sér aftur eftir leikhléið og voru með þriggja marka forskot, 17:14, að loknum stórskemmtilegum fyrri hálfleik. Einn Akkilesarhæll FH-liðsins í fyrri hálfleik var slök markvarsla. Daníel Freyr Andrésson náði sér ekki á strik og varði aðeins tvö skot. Axel Hreinn Hilmisson hljóp í skarðið síðustu mínúturnar.

Sex marka forskot

Haukar náðu sex marka forskoti, 24:18, eftir níu mínútna leik í síðari hálfleik. Við tók afar góður kafli hjá FH-ingum sem aftur fór í 5/1 vörn auk þess sem Daníel Freyr Andrésson varði nokkur skot.

Rautt spjald

Ásbjörn Friðriksson minnkaði muninn í eitt mark, 25:24 úr vítakasti 13 mínútum fyrir leikslok. Í næstu sókn fékk Jakob Martin Ásgeirsson, leikmaður FH, rautt spjald fyrir brot á Geir Guðmundssyni. Haukar skoruðu tvö mörk í kjölfarið og komust þremur mörkum yfir, 27:24 þegar 11 mínútur voru til leiksloka. Þráinn Orri kom Haukum fimm mörkum yfir, 30:25, þegar sex mínútur voru til leiksloka. Í millitíðinni hafi Aron Rafn Eðvarðsson markvörður Haukar m.a. varið vítakast.

Haukar náðu fimm marka forskoti, 32:27. FH-ingar héldu í vonina allt þangað til á síðustu mínútu hafandi náð forskotinu í þrjú mörk, 32:29. Nær komust þeir ekki og Össur Haraldsson skoraði 33. og síðasta markið á síðustu sekúndum.

Mörk Hauka: Össur Haraldsson 6, Þráinn Orri Jónsson 6, Geir Guðmundsson 5, Guðmundur Bragi Ástþórsson 4, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Tjörvi Þorgeirsson 3, Adam Haukur Baumruk 3, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 2, Kristófer Máni Jónasson 1.
Varin skot: Aron Rafn Eðvarðsson 14/1, 33,3%.

Mörk FH: Jóhannes Berg Andrason 9, Aron Pálmarsson 5, Einar Bragi Aðalsteinsson 4, Birgir Már Birgisson 4, Ásbjörn Friðriksson 4/3, Jón Bjarni Ólafsson 2, Jakob Martin Ásgeirsson 1.
Varin skot: Daníel Freyr Andrésson 8, 21,6% – Axel Hreinn Hilmisson 1, 20%.

Tölfræði leiksins hjá HBStatz.

Náðum aldrei tökum á okkar varnarleik

Allt sem við gerðum var þess virði eftir þennan sigur

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -