- Auglýsing -
- Auglýsing -

Besti varnarmaður Noregs er Íslendingur

Óskar Ólafsson, leikmaður Drammen. Mynd/Drammen
- Auglýsing -

Handknattleiksmaðurinn Óskar Ólafsson, leikmaður norska úrvalsdeildarliðsins Drammen, er ekki ýkja þekktur hér á landi þótt hann hafi gert það gott hjá norska liðinu um nokkurra ára skeið. Ástæða þess er m.a. sú að Óskar hefur búið í Noregi frá tveggja ára aldri. Hann lék eitthvað með yngri landsliðum Íslands en hefur ekki verið inn í myndinni eftir það.

Óskar, sem er 26 ára gamall, og hefur um nokkurra ára skeið verið einn mikilvægasti hlekkurinn í keðjunni hjá Drammen-liðinu. Í nýlegri grein um Óskar á vefsíðu norsku deildarkeppninnar, topphåndball.no er ítarlega fjallað um hann. Bæði er rætt við Óskar og talað við menn um hann.
„Óskar er ekki sá leikmaður sem mest er talað um hvorki fyrir né eftir leiki. Hann er heldur ekki sá sem skorar flest mörkin en hann er einn þeirra sem skilar alltaf fyrsta flokks starfi inni á vellinum,“ segir Magnus Gulliksen greinarhöfundur.

Óskar Ólafsson í búningi íslenska landsliðsins þegar hann lék með einu af yngri landsliðunum. Mynd/HSÍ

Í greininni er m.a. fullyrt að Óskar sé besti varnarmaður norsku úrvalsdeildarinnar um þessar mundir. „Ég tel Óskar vera besta varnarmann í Noregi,“ segir Kristian Kjelling, þjálfari Drammen og bætir við að Óskar hafi allt sem góðan varnarmann megi prýða.

„Mín skoðun er sú að hann ætti að koma til álita í íslenska landsliðið. En það er ekki ég sem vel liðið. Sennilega myndi Óskar þó falla betur inn í varnarleik norska landsliðsins en þess íslenska eins og liðin hafa verið að haga sínum varnarleik,“ segir Kjelling sem er einn reyndasti og fremsti handknattleiksmaður sem Noregur hefur átt.

Á fimmta tímabili í Drammen


Í viðtalinu segist Óskar hafa byrjað að æfa handknattleik ungur með Kolbotn en síðan með Bækkelaget en frá og með leiktíðinni 2013/14 með Follo hvar hann var í þrjú ár. Óskar hóf nýlega sitt fimmta keppnistímabil með Drammen.


Óskar segist fyrst og fremst hafa verið varnarmaður. „Það hlutverk þekki ég vel en ég hef ekki slegið hendinni á móti því að fá stærra hlutverk í sóknarleiknum,“ segir Óskar.


Kjelling sem kom til Drammen um líkt leyti og Óskar segir það hafa vakið furðu sína hversu fá tækifæri hann hafi fengið í sóknarleik Follo. Óskar hafi verið og sé e.t.v. enn vanmetinn sóknarmaður.


Óskar segist líta á sig sem Íslending þótt hann hafi búið í Noregi nær alla ævi. Hann sé íslenskur ríkisborgari og sé með íslenskt vegabréf. „Ég tala reyndar norsku allstaðar nema heima hjá foreldrum mínum. Heima tölum við alltaf saman á íslensku.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -