Forráðamenn danska úrvalsdeildarliðsins bíða á milli vonar og ótta eftir fregnum af færeyska handboltmanninum Óli Mittún sem meiddist á öxl í viðureign liðsins við Aalborg Håndbold á laugardaginn. Gripið var í handlegg Óla þegar hann hafði leikið vörn Álaborgarliðsins grátt í leiknum. Tók hann ekkert þátt í síðari hálfleik af þessum sökum. Grunur leikur á um að meiðsli kunni að vera alvarleg.
„Þetta lítur ekki vel út en við skulum sjá til,“ hefur Portal.fo eftir Óla í frétt um nýliðna helgi.
Óli kom til GOG í sumar eftir veru hjá IK Sävehof og hefur þegar slegið í gegn með GOG. Hann lék sinn fyrsta leik í Meistaradeildinni á fimmtudag í síðustu viku gegn Viktori Gísla Hallgrímssyni og liðsfélögum í Barcelona. Framundan er viðureign hjá GOG á miðvikudaginn gegn ungversku bikarmeistrunum Pick Szeged sem Janus Daði Smárason leikur með. Viðureignin er í 2. umferð Meistaradeildar og fer fram á Fjóni.
Svíinn Felix Møller leikmaður Aalborg braut á Óla og uppskar beint rautt spjald.