KA/Þór er Coca Cola bikarmeistari í handknattleik kvenna 2021 eftir sigur á fráfarandi bikarmeisturum Fram, 26:20, í úrslitaleik í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í dag. Þetta er í fyrsta sinn sem KA/Þór vinnur bikarkeppnina og er liðið nú handhafi Íslands, deildar og bikarmeistaratitlana sama og Valur gerði árið 2012. Magnaður árangur. Hver talaði um hefnd frá bikarúrslitaleiknum í mars 2020? Sigurinn var sannarlega verðskuldaður. KA/Þór var með yfirhöndina í leiknum í dag frá upphafi til enda og lék frábærlega, jafnt í vörn sem sókn.
KA/Þór hóf leikinn vel. Varnarleikurinn var öflugur og sló öll vopn úr höndum Framara sem gerðu hverja vitleysuna á fætur annarri. Eftir stundarfjórðungsleik var forskot, KA/Þórs fjögur mörk, 6:2, sem segir talsvert um sóknarleik Fram á upphafsmínútunum.
Eftir leikhlé sneri Fram skyndilega leiknum við, jafnaði metin, 6:6, og komst yfir, 8:7, þegar átta mínútur voru til hálfleiks. Sælan varði ekki lengi hjá Fram-liðinu. KA/Þórskonur bitu hressilega frá sér. Vörnin hélt og Matea Lonac varði allt hvað af tók. KA/Þór fór með þriggja marka forskot inn í hálfleikinn, 12:9, og byr í seglum.
Sá byr var enn í seglunum í byrjun síðari hálfleiks. KA/Þórsliðið byrjaði frábærlega og var með sjö marka forskot, 19:12, þegar liðlega tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.
Upp úr þessu náði Fram góðum spretti og minnkað muninn niður í þrjú mörk, 20:17. Það stóð ekki lengi því aftur bættist í byrinn. KA/Þórsliðið jók forskotið á ný í sex mörk, 23:17, þegar níu mínútur voru til leiksloka. Þennan mun náði Fram-liðið ekki að vinna upp þótt það reyndi m.a. með því að taka út tvo leikmenn KA/Þórs á endasprettinum.
Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 7/5, Karen Knútsdóttir 5, Emma Olsson 3, Þórey Rósa Stefánsdóttir 1, Stella Sigurðardóttir 1, Hildur Þorgeirsdótttir 1.
Varin skot: Hafdís Renötudóttir 12, Irena Björk Ómarsdóttir 1.
Mörk KA/Þórs: Unnur Ómarsdóttir 6, Aldís Ásta Heimisdóttir 5, Rut Arnfjörð Jónsdóttir 5, Rakel Sara Elvarsdóttir 4, Martha Hermannsdóttir 4/3, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 1.
Varin skot: Matea Lonac 15.