Bikarmeistarar Fram eru úr leik í bikarkeppni HSÍ í karlaflokki. KA lagði bikarmeistarana, 30:25, í kvöld og er þar með komið í undanúrslit í fyrsta sinn frá árinu 2022. Undanúrslitaleikirnir fara fram fimmtudaginn 26. febrúar. Síðar í kvöld skýrist hvaða þrjú lið fylgja KA í undanúrslit bikarkeppninnar.
KA var marki yfir í hálfleik, 14:13. Síðari hálfleikur var lengi vel jafn og ekki munaði nema einu marki á annan hvorn veginn. Þegar 20 mínútur voru til leiksloka urðu kaflaskipti. KA-menn skoruðu þá átta mörk á næstu 13 mínútum en Fram aðeins tvö. Þar með náði KA forskoti sem liðið hélt til leiksloka. Ekki síst munaði um að Bruno Bernart markvörður KA hrökk í gang og varði átta skot síðustu 20 mínútur leiksins.
Mörk KA: Morten Linder 7, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 6, Giorgi Arvelodi Dikhaminjia 5, Jens Bragi Bergþórsson 4, Logi Gautason 3, Magnús Dagur Jónatansson 2, Einar Rafn Eiðsson 2, Einar Birgir Stefánsson 1.
Varin skot: Bruno Bernat 12, 32,4%.
Mörk Fram: Daníel Ragnarsson 10, Ívar Logi Styrmisson 5/2, Kjartan Þór Júlíusson 4, Þorsteinn Gauti Hjálmarsson 3, Rúnar Kárason 2, Erlendur Guðmundsson 1.
Varin skot: Breki Hrafn Árnason 10/2, 31,3% – Arnór Máni Daðason 1, 11,1%.
Tölfræði leiksins hjá HBStatz.




