- Auglýsing -
Undanúrslitaleikir Powerade-bikars kvenna í handknattleik fara fram í Laugardalshöll í kvöld. Klukkan 18 verður flautað til leiks ÍR og Vals og klukkan 20.15 hefja Stjarnan og Selfoss viðureign sína en úrslit hennar skera úr um hvort liðið leikur til úrslita á laugardaginn. Hér fyrir neðan er tæpt á nokkrum atriðum í sögunni.
24 ára bið á enda
- ÍR leikur í kvöld í fimmta sinn í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik. Lið félagsins átti blómaskeið í keppninni þrjú ár í röð, 1982, 1983 og 1984. Mynd af sigurliðinu 1983 er efst með greinni.
- ÍR-liðið vann bikarinn 1983 og hreppti silfurverðlaun 1982 og 1984. Þegar ÍR komst fyrst í undanúrslit 1982 lagði lið félagins KR, 11:10.
- Síðast náði ÍR sæti í undanúrslitum bikarkeppninnar árið 2000 en tapaði fyrir Gróttu/KR, 23:18, eftir sigur á Aftureldingu í átta liða úrslitum.
- ÍR vann Víking, 21:19, og HK, 31:21, á leið sinn í undanúrslit að þessu sinni.
Sjötta sinn í röð
- Valur á lið í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í 29. sinn, þar af í sjötta sinn í röð, alltaf undir stjórn sama þjálfarans, Ágústs Þórs Jóhannssonar.
- Valur komst í fyrsta sinn í undanúrslit bikarkeppninnar árið 1977, árið eftir að bikarkeppnin hóf göngu sína í kvennaflokki. Valur tapaði fyrir KR í umræddum leik árið 1977, 13:12.
- Valur sat yfir í fyrstu umferð bikarkeppninnar en lagði Hauka, 32:28, í átta liða úrslitum.
Í 25. sinn í undanúrslitum
- Í kvöld leikur lið frá Stjörnunni í 25. sinn í undanúrslitum bikarkeppni kvenna í handknattleik. Stjarnan komst fyrst í undanúrslit keppninnar 1986 og vann þá Val, 30:27.
- Síðst var Stjarnan í undanúrslitum kvennaflokki árið 2019 og tapaði fyrir Fram, 30:21.
- Að þessu sinni vann Stjarnan Aftureldingu, 25:19 og Gróttu 25:20 á leið í undanúrslit.
Fyrst í undanúrslitum 1990
- Selfoss er í nú í fjórða sinn með lið í undanúrslitum bikarkeppninnar í kvennaflokki. Í fyrsta sinn náði lið frá Selfossi svona langt í bikarkeppninni árið 1990 en tapaði illa fyrir Stjörnunni, 37:20.
- Í annað sinn lék Selfoss í undanúrslitum fyrir sjö árum og þriðja sinn fyrir ári.
- Á leiðinni í undanúrslit að þessu sinni vann Selfoss Fram, 34:22, í fyrstu umferð og KA/Þór í átta liða úrslitum, 34:15.
- Kvennalið Selfoss hefur ekki tapað leik á þessu keppnistímabili, leikið 18 sinnum í deild og bikar og unnið þá alla.
- Auglýsing -