Örvhenta stórskyttan Birkir Benediktsson hefur skrifað undir samning við FH. Frá þessum tíðindum segir Handkastið í kvöld samkvæmt öruggum heimildum. Birkir lék með Wagunaka í Japan á síðustu leiktíð en flutti heim í sumar. Var hann sagður hafa í hyggju að taka sér frí frá handknattleik. M.a. sýndi Birkir ekki áhuga á að ganga til liðs við HK þótt eftir því væri leitað í vor, samkvæmt heimildum handbolta.is.
FH-ingar hafa leitað logandi ljósi að örvhentri skyttu í stað Jóhannesar Bergs Andrasonar sem kvaddi Kaplakrika í vor í framhaldi af samkomulagi sínu við danska úrvalsdeildarliðið TTH Holstebro.
Áður en Birkir fór til Japan fyrir ári hafði hann leikið með Aftureldingu frá barnsaldri.
Birkir verður þriðji nýi leikmaðurinn í herbúðum FH. Áður hefur FH samið við unglingalandsliðsmanninn Bjarka Jóhannsson og Med Khalil Chaouachi línumann frá Túnis.
Karlar – helstu félagaskipti 2025
Staðfest!
Uppfært: FH staðfesti með færslu á samfélagsmiðlum sínum í hádeginu í dag, fimmtudag, að Birkir hafi gengið til liðs við félagið. Samningur FH við Birki er til eins árs.