Örvhenta stórskyttan, Birkir Benediktsson, sleit hásin á æfingu hjá Aftureldingu í kvöld og var umsvifalaust fluttur á sjúkrahús. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir Aftureldingu og Birki aðeins sólarhring áður en flautað verður til fyrsta leiks liðsins í Olísdeildinni í handknattleik gegn Þór klukkan 19.30 annað kvöld.
Nærri fullvíst má telja að Birkir, sem 24 ára gamall, leiki ekkert með Aftureldingu á keppnistímabilinu sem er að hefjast.
„Þetta er að sjálfsögðu mikið áfall fyrir Birki sjálfan. Hann var kominn í mjög gott stand og búinn að spila mjög vel með okkur í Aftureldingu á undirbúningstímanum,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Aftureldingar, þegar handbolti.is náði tali af honum.
„Að sjálfsögðu hefur þetta mikil áhrif á liðið og breytir okkar markmiðum að minnsta kosti í bili,“ bætti Gunnar sem hefur um nóg að hugsa þessa dagana því auk Birkis er Blær Hinriksson ristarbrotinn og Guðmundur Árni Ólafsson fingurbrotinn. Blær kom til Aftureldingar í sumar frá HK.
Gunnar fékk í morgun Halldór Inga Jónasson frá Haukum að láni til að hlaupa í skarðið fyrir Guðmund Árna næstu tvo mánuði. Enn er hinsvegar alltof snemmt að segja til um hvernig Aftureldingarmenn geta fyllt skarð Birkis.
Leikir 1.umferðar Olísdeildar karla:
Fimmtudagur kl. 18.00 ÍR – ÍBV – Austurberg
Fimmtudagur kl.19.30 Grótta – Haukar – Hertz höllin
Fimmtudagur kl.19.30 Afturelding – Þór Ak. – Varmá
Föstudagur kl. 19.30 KA – Fram – KA-heimili
Föstudagur kl. 20.30 Stjarnan – Selfoss – TM-höllin
Laugardagur kl. 18.00 FH – Valur – Kaplakriki