Landsliðsmaðurinn Bjarki Már Elísson er byrjaður að láta til sín taka með ungverska stórliðinu Veszprém eftir að hann gekk til liðs við það í sumar. Bjarki Már skoraði sex mörk og var á meðal markahæstu leikmanna liðsins í fyrsta æfingaleik þess á dögunum.
Veszprém vann franska liðið Dunkerque með tíu marka mun, 35:25. Franska liðið var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 15:14.
Nokkur uppstokkun átti sér stað á liði Veszprém í sumar og er Bjarki Már á meðal nýrra leikmanna sem eiga að hressa upp á hópinn. Ekki færri en fimm leikmenn komu til liðsins og jafnmargir réru á önnur mið. Fleiri breytingar á liðinu sumarið 2023 hafa verið boðaðar og þegar hefur verið samið við sex leikmenn.
Veszprém hefur m.a. ekki unnið ungverska meistaratitilinn tvö síðustu ár, sem er nokkuð sem forráðamenn þess eru ekki sáttir við enda góðu vanir eftir 11 meistaratitla í röð frá 2008 til 2019. Eins hefur liðinu aldrei tekist að vinna Meistaradeild Evrópu þótt það hafi oft komist í undanúrslit síðasta áratuginn.
Fyrsti formlegi keppnisleikur Bjarka Más með Veszprém verður á sunnudaginn þegar liðið mætir Tatran Presov í átta liða úrslitum Austur-Evrópudeildarinnar (SHEA-league). Þráðurinn verður þá tekinn upp í keppninni frá síðasta keppnistímabili en eftir innrás rússneskra herja inn í Úkraínu var keppni í Austur-Evrópudeildinni lögð í salt.