- Auglýsing -
Bjarki Már Elísson og samherjar hans í Lemgo biðu skipbrot á heimavelli í dag er þeir tóku á móti GWD Minden í þýsku 1. deildinni í handknattleik. Leikmenn GWD Minden eru að berjast fyrir lífi sínu í deildinni. Fyrir því fengu Bjarki Már og félagar að finna því þeir töpuðu með 12 marka mun, 32:20. GWD Minden var með átta marka forskot í hálfleik, 18:10.
Bjarki Már hefur oft náð sér betur á strik. Hann skoraði þrjú mörk í átta skotum. Lemgo liðið var aldrei inni í leiknum að þessu sinni og því fór sem fór. Lucas Meister stóð undir nafni og átti stórleik fyrir Minden, skoraði sjö mörk í jafnmörgum tilraunum. Tomas Urban skoraði einnig í sjö skipti. Hornamaðurinn Lukas Zerbe var atkvæðamestur hjá Lemgo með fjögur mörk.
Malte Semisch, markvörður GWD Minden, fór hamförum. Hann varði 22 skot, þar af eitt vítakast og var með 52% markvörslu. Hann sá um að kveða Bjarka Má og félaga í kútinn.
Lemgo siglir lygnan sjó um miðja deildina með 24 stig þegar níu leikjum er ólokið. GWD Minden er í þriðja neðsta sæti með 13 stig. Aðeins Lübbecke og Balingen hafa færri stig en tvö lið falla úr deildinni í vor.
- Auglýsing -