Þegar íslenska landsliðið í handknattleik karla hefur þátttöku á heimsmeistaramótinu í Zagreb í Króatíu 16. janúar á næsta ári verður það áttunda heimsmeistaramótið sem markvörðurinn þrautreyndi, Björgvin Páll Gústavsson, tekur þátt í. Hann jafnar þar með þátttökumet Guðjóns Vals Sigurðssonar sem er sá íslenskur handknattleiksmaður sem tekið hefur þátt í flestum heimsmeistaramótum, 2001, 2003, 2005, 2007, 2011, 2013, 2015 og 2017. Hann missti af HM 2019 vegna meiðsla.
Með í 46 af 47 leikjum
Björgvin Páll var fyrst með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramóti þegar það fór fram í Svíþjóð 2011. Síðan hefur hann tekið þátt í 46 af 47 leikjum íslenska landsliðsins á sjö heimsmeistaramótum í röð og skorað átta mörk. Eini leikurinn sem Björgvin Páll hefur ekki tekið þátt í frá HM 2011 er viðureignin við Portúgal á HM 2021 í Egyptaland. Ágúst Elí Björgvinsson og Viktor Gísli Hallgrímsson stóðu vaktina í þeim leik sem íslenska landsliðið vann, 25:23.
Fyrsti leikurinn og markið
Fyrsti HM-leikur Björgvin Páls var sigurleikur gegn Ungverjum, 32:26, í Norrköping í Svíþjóð 14. janúar 2011.
Fyrsta HM-markið skoraði Björgvin Páll í tapleik gegn Spánverjum í Metz, 12. janúa 2017, 21:27. Hann er eini íslenski markvörðurinn sem skorað hefur mark/mörk á HM.
Átjánda stórmótið
HM 2025 verður átjánda stórmót Björgvins Páls með íslenska landsliðinu. Hann hefur tekið þátt í öllum stórmótum landsliðsins frá og með Ólympíuleikunum í Beijing 2008.
Aðeins Guðjón Valur hefur tekið þátt í fleiri stórmótum (HM, EM, ÓL) með landsliðinu, alls 22. Næstur er Björgvin Páll með 17 stórmót að baki og þar á eftir er Ólafur Stefánsson. Hann var með á 16 stórmótum.
Eftirtaldir landsliðsmenn hafa tekið þátt í fimm heimsmeistaramótum eða fleiri:
Guðjón Valur Sigurðsson – 8.
Björgvin Páll Gústavsson – 7.
Ólafur Stefánsson – 7.
Guðmundur Hrafnkelsson 6.
Alexander Petersson – 5.
Aron Pálmarsson – 5.
Arnór Atlason – 5.
Arnór Þór Gunnarsson – 5.
Ásgeir Örn Hallgrímsson – 5.
Dagur Sigurðsson – 5.
Geir Sveinsson – 5.
Kári Kristján Kristjánsson – 5.
Ólafur Andrés Guðmundsson – 5.
Róbert Gunnarsson – 5.
Snorri Steinn Guðjónsson – 5.
Vignir Svavarsson – 5.
Þrír HM-nýliðar í hópnum sem Snorri Steinn valdi