Færeyski handknattleiksmaðurinn hjá Aftureldingu, Hallur Arason, fór úr axlarlið á æfingu í vikunni. Hann leikur þar af leiðandi ekki með Aftureldingu í Olísdeildinni um óákveðinn tíma. Ljóst er að hann þarf að fara í ítarlega skoðun áður en næstu skref verða tekin, ekki síst í ljósi þess að þetta er í annað sinn á innan við ári sem Hallur fer úr þessum sama lið, þ.e. á hægri öxl.
Fjarvera Halls er mikil blóðtaka fyrir Aftureldingu og Stefán Árnason þjálfara sem er að koma saman talsvert breyttu liði frá síðustu leiktíð. Hallur átti á tíðum góða leiki með Aftureldingu á síðasta tímabili og eru bundnar talsverðar vonir við að hann verði enn sterkari í vetur.
Í fjarveru Halls mun meira mæða á hinum efnilega handknattleiksmanni Ævari Smára Gunnarssyni auk þess sem Árni Bragi Eyjólfsson verður í auknu hlutverki í skyttustöðunni hægra megin í stað þess að vera í hægra horninu.
Hallur vann sér sæti í færeyska landsliðinu á síðustu leiktíð.
Afturelding vann Hauka í fyrstu umferð Olísdeildarinnar í gær, 28:27, á Ásvöllum og sækir HK heim í Kórinn í næstu viku.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.