- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Börðumst til síðasta blóðdropa“

Hildigunnur Einarsdóttir er leikmaður Leverkusen. Mynd/Bayer Leverkusen
- Auglýsing -

Ævintýralegur endasprettur Bayer Leverksuen tryggði liðinu fimm marka sigur á Thüringen HC í 1. deild kvenna í Þýskalandi í kvöld en Hildigunnur Einarsdóttir er leikmaður Leverkusen sem komst upp í fjórða sæti deildarinnar með þessum sigri sem var um leið fyrsta tap Thüringen-liðsins á keppnistímabilinu.

„Þetta var þvílíkur karaktersigur þar sem við börðumst til síðasta blóðdropa. Við vorum nokkrum sinnum tveimur og þremur mörkum undir en komum alltaf til baka,“ sagði Hildigunnur við handbolta.is þar sem hún var enn að blása mæðinni eftir sigurinn.

„Þetta var ógeðslega gaman en ég hef aldrei verið svona þreytt eftir leik,“ sagði Hildigunnur ennfremur.

Þegar sjö mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 26:26. Thüringen HC sem var á heimavelli hafði verið með frumkvæðið lengst af leiksins þegar þarna var komið við sögu. Þá tók við rosalegur endasprettur hjá Hildigunni og stöllum hennar sem innsigluðu fimm marka sigur.

Tapar ekki á hverjum degi

Thüringen HC hefur árum saman verið eitt besta kvennalið Þýskalands. Það tapar svo sannarlega ekki á heimavelli á hverjum degi og það allra síst fyrir liðum sem eru neðar í töflunni.

Thüringen HC var þremur mörkum yfir í hálfleik, 17:14, og virtist vera með öll ráð í hendi sér.

Hildigunnur skoraði tvö mörk. Markvörður Leverkusen Kristina Graovac átti stórleik, var með 45% hlutfallsmarkvörslu á þeim 38 mínútum sem hún stóð á milli stanganna.

Þriðji sigurleikinn í röð

Þetta var þriðji sigurleikur Leverkusen í röð sem er nú komið upp í fjórða sæti deildarinnar með átta stig að loknum sex leikjum. Thüringen HC er í þriðja sæti með 11 stig en á sjö leiki að baki. Bietigheim er efst með 13 stig eftir sjö leiki og Dormund situr í öðru sæti með 12 stig þegar liðið á sex leiki eftir.

„Ég var ekki nógu sátt með minn varnarleik í fyrri hálfleik en ég er mjög sátt við sóknarleik minn. Stelpurnar dældu inn á mig sendingum. Ég náði að skora eða fiska víti. Það var rosalega erfitt að komast að markinu því þegar ég fékk boltann voru tveir eða þrír leikmenn komnir á mig. Þar af leiðandi fór rosalega orka í slagsmál sem ég geng mjög sátt frá,“ sagði Hildigunnur Einarsdóttir, handknattleikskona hjá Bayer Leverkusen.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -