- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brasilíumenn streyma til Harðar – tveir í dag og einn í fyrrakvöld

Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Forsvarsmenn Harðar á Ísafirði slá ekki slöku við þessa daga. Í fyrrakvöld var sagt frá að samningur hafi náðst við Jhonatan Cristiano Ribeiro Dos Santos, 24 ára gamlan miðjumann. Í dag bætast tveir landar hans í hópinn.


Annars vegar er um að ræða Guilherme Carmignoli De Andrade, 21 árs gamla skyttu sem svo sannarlega er ekki maður einhamur, og hinsvegar Jose Esteves Lopes Neto sem er örvhentur og m.a. leikið með U23 ára landsliði Brasilíu.


De Andrade kemur til Harðar frá Nacional Handebol í Brasilíu og virðist margt til lista lagt á handknattleiksvellinum. Hann getur jafnt leikið sem skytta vinstra og miðjumaður nú eða í vinstri horni. Allt eftir þörfum hverju sinni, eftir því sem fram kemur í tilkynningu á Facebooksíðu Harðar.


De Andrade, sem skrifað hefur undir tveggja ára samning við Hörð, lætur ekki þar við sitja því hann er einnig fastamaður í brasilíska U21 landsliðinu og hefur jafnframt leikið með U23 liði Brasilíu.


Hinn Brasilíumaðurinn sem getið er um að ofan, Lopes Neto, hefur fram til þessa verið leikmaður Corinthians Guarulhos – VEGUS.


Þar með verða a.m.k. fjórir brasilískir handknattleiksmenn með Herði í Olísdeildinni á leiktíðinni þegar atvinnuleyfi og leikheimildir verða í höfn. Fjórði er markvörðurinn Emannuel Augusto Evangelista sem samdi við Hörð í byrjun september.

Færri komast að en vilja

Þegar Brasilíumennirnir fjórir verða komnir með leikheimild verða leikmenn Harðar frá löndum utan EES orðnir fimm. Aðeins tveir mega vera á leikskýrslu á í hverjum leik samkvæmt 17. grein reglugerðar HSÍ um félagaskipti, leikmannasamninga og fleira. Þar segir:


„Ekki geta fleiri en tveir erlendir leikmenn frá öðrum löndum en Evrópska efnahagssvæðinu, Færeyjum og Grænlandi verið skráðir á leikskýrslu hvers félags í hvert sinn í leik á vegum HSÍ. Þó er stjórn HSÍ heimilt í algerum undantekningartilfellum að samþykkja félagsskipti fleiri erlendra leikmanna en tveggja ef um er að ræða námsmenn eða flóttamenn búsetta á Íslandi. Beiðnir af þessum toga skulu ítarlega rökstuddar.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -