Hinn snjalli þjálfari karlalandsliðs Færeyja í handknattleik karla, Peter Bredsdorff-Larsen, hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við Handknattleiksamband Færeyja. Nýi samningurinn gildir til loka janúar 2028, eða fram yfir Evrópumótið sem haldið verður í Portúgal, Spáni og Sviss.
Bredsdorff-Larsen er danskur og hafði getið sér afar gott orð sem þjálfari í heimalandi sínu þegar hann tók við þjálfun færeyska landsliðsins 2021. Bæði AaB og Bjerringbro/Silkeborg unnu danska meistaratitilinn undir hans stjórn. Bredsdorff-Larsen var aðstoðarþjálfari danska karlalandsliðsins í áratug, m.a. fyrsta árið eftir Guðmundur Þórður Guðmundsson tók við þjálfun landsliðsins 2014.
Undir stjórn Bredsdorff-Larsen hefur færeyska landsliðið ekki tapað á heimavelli í þrjú ár eftir því sem fram kemur á Portal.fo.
Bredsdorff-Larsen stýrði færeyska landsliðinu til sögulegs árangurs þegar liðið tryggði sér vorið 2023 sæti í lokakeppni EM 2024. Var það í fyrsta skipti sem færeyskt landslið vann sér þátttökurétt í lokakeppni stórmóts í boltaíþrótt.
Mörgum er eflaust í fersku minni þegar færeyska landsliðið var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í milliriðlakeppni EM 2024 í Þýskalandi.
Fara þúsundum saman til Óslóar
Færeyingar misstu naumlega af sæti í lokakeppni HM 2025. Þeir settu undir sig hausinn og unnu sér inn farseðil í lokakeppni EM 2026.
Gríðarlegur áhugi er fyrir karlalandsliðinu og er reiknað með að á milli 5 til 10 þúsund Færeyingar verði í Ósló í janúar á næsta ári þegar landsliðið leikur þar í lokakeppni EM.