- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Brottfalli verður sérstakur gaumur gefinn

Þessir piltar í 8. flokki Víkings í Safamýri verða vafalaust glaðir yfir að komast aftur á handboltaæfingar. Mynd/Víkingur
- Auglýsing -

Börn og unglingar á grunnskólaaldri máttu hefja íþróttaæfingar á ný í dag eftir sex vikna hlé. Væntanlega verður það kærkomið fyrir marga að geta mætt með félögum og vinum á nýjan leik eftir langt hlé. Annað langt hlé var í vor. Um leið og skipulagðar æfingar íþróttafélaga hafa legið niðri hefur börnum og unglingum einnig verið óheimilt að stunda sund á skólatíma eða njóta annarrar íþróttakennslu, a.m.k. innandyra.

Margir hafa áhyggjur af brottfalli eftir þessi löngu hlé sem hafa orðið á þessu ári en til viðbótar við þau þá lágu æfingar niðri í sumar í flestum hefðbundnum vetraríþróttagreinum.

Hanbolti.is hafði samband við umsjónarmenn með íþróttum barna og unglinga hjá þremur félögum og spurði hvort eitthvað sérstakt yrði gert hjá þeim til þess að laða börnin aftur á æfingar og hvort þeir óttuðust brottfall.

Sigurgeir Árni Ægisson, yfirþjálfari handknattleiksdeildar FH:
„Við erum að skipuleggja og skoða hvað við getum gert og hvað við munum gera til að ná til allra. Æfingar byrja núna og fljótlega þá sjáum við hve margir iðkendur skila sér inn á æfingar. Það er ljóst að við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að ná inn öllum iðkendum sem og nýjum og byrjum á því núna strax. Við munum svo fara í átaks- og kynningarverkefni í janúar eins og við höfum gert síðastliðin ár. Það hefur reynst okkur afar vel.“

Elías Már Halldórsson, yfirþjálfari HK:
„Við ætlum að leggja áherslu á að hafa æfingarnar extra skemmtilegar næstu vikurnar. Þjálfarar félagsins munu fylgjast sérstaklega vel með hvort að iðkendur skili sér til baka á æfingar. Við vonum að þetta stopp muni ekki hafa áhrif á okkar iðkendur.
Fram til þess höfum við sem betur fer verið heppin og iðkendum hefur ekki fækkað mikið hjá okkur. Ég óttast það að þetta stopp muni hafa slæm áhrif á okkur.“


Arnór Ásgeirsson, markaðsstjóri Fjölnis:
„Fyrir utan að opna fyrir æfingar samkvæmt æfingatöflu þá hafa deildirnar verið að vinna að ýmsu til að fá börnin aftur til baka m.a. að halda félagslega viðburði. Einnig stendur til að hringja í þá iðkendur sem mæta ekki fyrstu vikuna. Starfsfólk skrifstofu hefur verið í góðu sambandi við forsvarsmenn deildanna og hvatt þá að gera allt sem í þeirra valdi stendur við að fá alla iðkendur inn sem allra fyrst.“

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -