- Auglýsing -

Burstuðu Ungverja og leika um gullverðlaun

- Auglýsing -


Piltarnir í 17 ára landsliðinu í handknattleik leika til úrslita á morgun á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Skopje í Norður Makedóníu. Síðar í dag skýrist hvort þeir mæta landsliði Þýskalands eða Króatíu. Íslensku piltarnir unnu stórsigur á ungverska landsliðinu í undanúrslitum í dag, 40:32. Mestur var munurinn 14 mörk á liðunum.

Ungverjar sáu aldrei til sólar í fyrri hálfleik. Þeir lentu undir, 4:0, rétt eftir að flautað var til leiks. Íslensku piltarnir léku við hvern sinn fingur og voru komnir með sjö marka forskot eftir 15 mínútur, 13:6. Þeir héldu áfram að strá salti í sár Ungverja allt fram að hálfleik en þá var staðan 25:12.


Eftir mikla yfirburði í fyrri hálfleik þá var hreint formsatriði að halda sjó í síðari hálfleik og vinna öruggan sigur. Mestur varð munurinn 14 mörk áður en íslenska liðið slakaði á klónni síðustu mínúturnar.

Kampakátir í klefanum og tilbúnir í úrslitaleikinn á morgun. Ljósmynd/HSÍ

Þetta var fjórði sigur íslenska liðsins á hátíðinni í fjórum leikjum. Allir sigurleikirnir hafa verið afar öruggir.

Þýskaland og Króatíu mætast í síðari undanúrslitaleiknum klukkan 16.15. Fyrirfram eru Þjóðverjar taldir sigurstranglegri.

Úrslitaleikurinn hefst klukkan 12.30 á morgun, laugardag. Hægt er að horfa á endurgjaldslausar útsendingar á ehftv.com eða í streymi á https://eoctv.org/live.


Mörk Íslands: Gunnar Róbertsson 12, Ómar Darri Sigurgeirsson 6, Freyr Aronsson 4, Örn Kolur Kjartansson 3, Kári Steinn Guðmundsson 3, Logi Finnsson 3, Patrekur Smári Arnarsson 2, Alex Unnar Hallgrímsson 2, Anton Frans Sigurðsson 2, Bjarki Snorrason 2, Kristófer Tómas Gíslason 1.

Varin skot: Anton Máni Francisco Heldersson 10, Sigurmundur Gísli Unnarsson 9.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -