Spánverjar taka á móti bronsverðlaunum síðar í dag eftir að hafa unnið Frakka 35:29 í leiknum um þriðja sætið á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í Egyptalandi í dag. Þetta eru fyrstu verðlaun Spánverja á heimsmeistaramóti síðan þeir unnu gullverðlaunin á HM á heimavelli fyrir átta árum. Um leið er þetta aðeins fjórða heimsmeistaramótið frá 1993 þar sem Frakkar fara ekki heim með verðlaun í mótslok.
Spánverjar voru talsvert sterkari í leiknum í dag. Þeir gáfu tóninn strax í upphafi með þremur fyrstu mörkum leiksins áður en leikmenn Frakklands vöknuðu. Eftir það var spænska landsliðið með yfirhöndina. Sóknarleikur liðsins var markvissari og varnarleikurinn traustari auk þess sem Rodrigo Corrales var frábær í markinu og var með ríflega 40% markvörslu þegar upp var staðið. Eins og oft áður áður á þessu móti náðu markverðir franska landsliðsins sér alls ekki á strik.
Viljinn og löngunin til þess að vinna leikinn skein út andliti hvers leikmanns spænska landsliðsins frá upphafi meðan vonleysið ríkti hjá Frökkum sem virtust ekki hafa burði til þess að berjast af alvöru fyrir bronsverðlaununum.
Auk Corrales áttu bræðurnir Alex og Daniel Dujshebaev frábæran leik. Corrales var valinn maður leiksins í leikslok.
Þetta eru fjórðu verðlaun Spánverja á HM frá upphafi. Þeir hafa tvisvar unnið gullverðlaun, 2005 og 2013 og bronsverðlaun í tvígang, 2011 og 2021.
Mörk Spánar: Alex Dujshebaev 8, Daniel Dujshebaev 6, Aleix Gomez Abello 4, Adrian Figueras 4, Ferran Sole 4, Raul Entrerrios 4, Aitor Arino Bengoechea 2, Daniel Sarmiento Melian 1, Angel Fernandez Perez 1, Joan Canellas 1.
Mörk Frakklands: Hugo Descat 7, Ludovic Fabregas 4, Nicolas Tournat 4, Dika Mem 3, Michael Guigou 2, Nedim Remili 2, Kentin Mahe 2, Valentin Porte 2, Jean Jacques Acquevillo2, Luc Abalo 1.