Í dag verður fyrsti úrslitaleikur HK og Gróttu um sæti í Olísdeild kvenna á næsta keppnistímabili. Liðin leiða saman hesta sína í Kórnum klukkan 17. Vinna þarf tvo leiki til þess að tryggja sér sætið góða í Olísdeildinni. HK, sem lék í Olísdeildinni á keppnistímabilinu, vann Fjölni-Fylki í tveimur leikjum í undanúrslitum meðan viðureign Gróttu og ÍR fór í oddaleik á þriðjudagskvöld þegar Grótta hafði betur.
Haldið verður áfram að leika í undanúrslitum umspils um sæti í Olísdeild karla. Kríumenn fá leikmenn Fjölnis í heimsókn í Hertzhöllina á Seltjarnarnesi klukkan 14. Einum og hálfum tíma síðar mætast Víkingur og Hörður í íþróttahúsinu Torfnesi á Ísafirði við Skutulsfjörð.
Kría vann öruggan sigur í fyrsta leiknum við Fjölni, 27:20, í Dalhúsum á miðvikudagskvöld og mun með sigri í dag tryggja sér sæti í úrslitaleik um sæti í Olísdeild á næstu leiktíð. Takist Fjölni að jafna metin kemur til oddaleiks á þriðjudagskvöld.
Hörður og Víkingur háðu sannkallaða maraþonviðureign í Víkinni á miðvikudag sem lauk með sigri Víkinga eftir tvær framlengingar. Harðarmenn voru nálægt sigri í venjulegum leiktíma og einnig í lok fyrri framlengingar. Fróðlegt verður að sjá hvernig þessi langi leikur hefur lagst í leikmenn liðanna sem mætast nú í þriðja sinn á rúmri viku. Víkingur sótti Hörð heim í lokaumferð Grill 66-deildarinnar fyrir rúmri viku.
Umspil um sæti í Olísdeild kvenna, 1. leikur:
Kórinn: HK – Grótta, kl. 17.
Undanúrslit umspils Olísdeildar karla, 2. leikur:
Hertzhöllin: Kría – Fjölnir kl. 14. (1:0).
Ísafjörður: Hörður – Víkingur, kl. 15.30. (0:1) – sýndur á youtubesíðu Viðburðastofu Vestfjarða.