Tveir síðustu leikir 20. umferðar Olísdeildar karla í handknattleik fara fram í dag. Að þeim loknum verður gert hlé fram til 19. mars vegna leikja landsliðsins í undankeppni EM. Næst síðasta umferðin verður leikin 19. mars og sú síðasta 26. mars. Allir leikir tveggja síðustu umferðanna fara fram á sama tíma eins og verið hefur undanfarin ár.
Margra augu beinast að viðureign FH og Aftureldingar sem fram fer í Kaplakrika í kvöld og hefst klukkan 18.30. Þetta eru sömu lið og léku um Íslandsmeistaratitilinn síðasta vor. FH hafði betur eins og eflaust einhverjum er í fersku minni.
Eftir sigur Vals á Gróttu í gær þá fór Valur í efsta sæti Olísdeildar með 30 stig, er stigi fyrir ofan FH sem tekst að endurheimta efsta sætið í kvöld með sigri á Aftureldingu.
Afturelding er með 27 stig í fjórða sæti og þarf nauðsynlega á sigri að halda til að halda í von um að halda áfram að keppa við Val, FH og Fram um deildarmeistaratitilinn og sem best sæti í úrslitakeppninni sem er framundan að lokinni deildarkeppninni.
Stjarnan tekur á móti KA. Síðarnefnda liðið setur pressu á HK í keppninni um áttunda og síðasta sætið úrslitakeppninni með sigri í Hekluhöllinni. Flautað verður til leiks klukkan 16.
Olísdeild karla:
Hekluhöllin: Stjarnan – KA, kl. 16.
Kaplakriki:FH – Afturelding, kl. 18.30.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.