Íslandsmótið í handknattleik karla, Olísdeild karla, hefst í kvöld með viðureign Stjörnunnar og Vals í Hekluhöllinni í Garðabæ. Flautað verður til leiks klukkan 19.30. Fyrstu umferð Olísdeildar karla verður framhaldið á morgun, á föstudag og lýkur á laugardag þegar KA sækir nýliða Selfoss heim í Sethöllina á Selfossi.
Stjarnan vann á dögunum meistarakeppni HSÍ, lagði Fram, 29:28. Síðasta laugardag náðu Stjörnunmenn frábærum úrslitum í Rúmeníu í fyrri viðureigninni við CS Minaur Baia Mare, 26:26, í forkeppni Evrópudeildar. Viðureignin var Stjörnunni dýr vegna þess að Tandri Már Konráðsson fyrirliði sleit hásin í leiknum og verður fjarverandi næstu mánuði. Eins og er Sveinn Andri Sveinsson á sjúkralista.
Valur fór á kostum í undirbúningsleikjum fyrir tímabilið undir stjórn nýs þjálfara, Ágústs Þórs Jóhannssonar. Liðið vann hvern andstæðinginn á fætur öðrum.
Eitthvað er um skakkaföll í leikmannahópi Vals eins og hjá Stjörnunni.
Leikur Stjörnunnar og Vals verður sendur út á Handboltapassanum eins og aðrar viðureignir tímabilsins í öllum deildum og yngri flokkum.
Einnig verður HBStatz með stöðu- og textauppfærslur frá leiknum eins og öðrum á leiktíðinni. Framvegis verður hægt að fylgjast með stöðuppfærslum HBStatz á forsíðu handbolti.is.
Leikir 1. umferðar Olísdeildar karla:
Miðvikudagur 3. sept.: Stjarnan – Valur, kl. 19.30.
Fimmtudagur 4. sept.: FH – Fram, kl. 19.
Fimmtudagur 4. sept.: Haukar – Afturelding, kl. 19.30.
Föstudagur 5. sept.: ÍBV – HK, kl. 18.30.
Föstudagur 5. sept.: Þór – ÍR, kl. 19.
Laugardagur 6. sept.: Selfoss – KA, kl. 16.