Þriðji leikur átta liða úrslita Poweradebikars karla í handknattleik fer fram í kvöld. Óhætt er að segja að ekki sé um neinn venjulegan leik að ræða heldur leiða saman hesta sína Hafnarfjarðarveldin Haukar og FH á Ásvöllum klukkan 19.30.
FH hefur ekki náð inn í undanúrslit bikarkeppninnar síðan 2019 þegar lið félagsins lét ekki þar við sitja heldur vann bikarkeppnina í sjötta sinn í kjölfarið.
Frá því að FH varð bikarmeistari 2019 hafa Haukar tvisvar sinnum unnið sér sæti í undanúrslitum 2020 og 2023 en ekki tekist að hampa bikarnum þegar upp er staðið. Tíu ár eru liðin síðan Haukar unnu bikarinn og þá í sjöunda skipti.
Í gær komust ÍBV og Stjarnan í undanúrslit Poweradebikarsins. Á miðvikudagskvöld ræðst hvert verður fjórða liðið en þá eigast við Valur og Selfoss. Undanúrslitaleikir Poweradebikars karla fara fram í Laugardalshöll fimmtudaginn 7. mars og úrslitaleikurinn verður tveimur dögum síðar.
Leikur kvöldsins
Poweradebikar karla, 8-liða úrslit:
Ásvellir: Haukar – FH, kl. 19.30 – sýndur á RÚV2.