Fjórðu umferð Olísdeildar kvenna lýkur í dag með viðureign Fram og Hauka í Úlfarsárdal. Stefán Arnarson þjálfari Hauka mætir á sinn fyrri heimavöll og mætir nokkrum af þeim leikmönnum sem hann þjálfaði hjá Fram. Reikna má með jöfnum og skemmtilegum leik liðanna sem talin er vera þau sem helst geti veitt Val og ÍBV keppni.
Stórleikur í Skógarseli
Önnur umferð Grill 66-deild karla hefst í dag með stórleik í Skógarseli hvar mætast stálin stinn þegar Hörður sækir ÍR-inga heim. Liðin eru talin berjast um efsta sæti deildarinnar. Harðarmenn hafa safnað að sér liði og m.a. fengið þrjá erlenda leikmenn til liðs við sig á síðustu dögum.
Til viðbótar eigast HK og Grótta við í Grill 66-deild kvenna í Kórnum í dag.
Síðast en ekki síst standa Valur og ÍBV í ströngu í Evrópukeppni kvenna í handknattleik. ÍBV vann fyrri leikinn við Colegio de Gaia í Portúgal í gær, 27:23.
Uppselt í Braila
Valsliðsins bíður ekki síður erfiður leikur við HC Dunara Braila klukkan 14 í dag í Braila í Rúmeníu. Þrautreynt lið Braila vann með einu marki í Origohöllinn á síðasta sunnudag. Mikill áhugi er fyrir leiknum í Braila í dag. Eftir því sem næst verður komist er uppselt, 2.100 áhorfendur munu mæta með læti ef að líkum lætur.
Olísdeild kvenna:
Úlfarsárdalur: Fram – Haukar, kl. 16.30.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Grill 66-deild karla:
Skógarsel: ÍR – Hörður, kl. 13.
Ásvellir: Haukar U – Fram U, kl. 14.
Kórinn: HK U – Fjölnir, kl. 16.
Staðan og næstu leikir í Grill 66-deildum.
Grill 66-deild kvenna:
Kórinn: HK – Grótta, kl. 13.30.
Leikir Íslandsmótsins, þ.e. í Olísdeild kvenna og Grill 66-deildum karla og kvenna verða aðgengilegir í sjónvarpi Símans.
Evrópudeild kvenna, undankeppni 1. umferð, síðari leikur:
Braila: HC Dunara Braila – Valur, kl. 14. (30:29).
Evrópubikarkeppni kvenna, 1. umferð, síðari leikur:
Gaia: ÍBV – Colegio de Gaia, kl. 17. (27:23).