Línur geta skýrst í þremur rimmum í úrslitakeppni og umspili Olísdeildanna í dag. Að vanda er hver leikurinn settur ofan í annan.
Klukkan 15 tekur Fram á móti Haukum í þriðju umferð undanúrslita Olísdeildar kvenna í Lambhagahöllinni í Úlfarsárdal. Fram tapaði tveimur fyrstu leikjunum í framlengingu og verður að vinna viðureignina á heimavelli í dag til að falla ekki úr leik. Ef Haukar vinna leikinn er ljóst að Valur og Haukar mætast í úrslitum Íslandsmótsins. Valur lagði ÍBV í gær í þriðja og síðasta leik liðanna í undanúrslitum.
Klukkan 16 mætast í fjórða sinn í úrslitum umspils Olísdeildar kvenna Grótta og Afturelding. Staðan er sú að Afturelding hefur unnið tvær viðureignir en Grótta eina. Ef Afturelding vinnur heldur hún sæti sínu í Olísdeildinni. Takist Gróttu að vinna á heimavelli, eins og henni lánaðist í annarri umferð, verður oddaleikur á milli liðanna að Varmá á laugardaginn.
Klukkan 17 eigast við ÍBV og FH í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í fjórðu viðureign liðanna í undanúrslitum Olísdeildar karla. ÍBV hreppti sinn fyrsta vinning í einvíginu í Kaplakrika á sunnudaginn. Fylgi liðið sigrinum eftir með öðrum sigri á heimavelli í dag verður oddaleikur í Kaplakrika á sunnudaginn.
Allir leikir dagsins verður sendir út á Handboltapassanum.
Leikir dagsins
Olísdeild kvenna, undanúrslit, 3. umferð:
Lambhagahöllin: Fram – Haukar (0:2), kl. 15.
Umspil Olísdeildar kvenna, úrslit, 4. leikur:
Hertzhöllin: Grótta – Afturelding (1:2), kl. 16.
Olísdeild karla, undanúrslit, 4. umferð:
Vestmannaeyjar: ÍBV – FH (1:2), kl. 17.