- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dagskráin: Sjóða mun á keipum í Schenkerhöllinni

Íslands- og bikarmeistarar KA/Þórs höfnuðu í þriðja sæti í kjöri á liði ársins 2021. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

Stóri dagurinn í Coca Cola-bikarkeppninni í handknattleik er runninn upp. Nú sést fyrir endann á keppninni sem fram átti að fara á síðasta keppnistímabili og hófst reyndar í byrjun október en varð að slá á frest af ástæðum sem flestum er kunnar. Snörp keppni hefur staðið yfir síðustu vikur sem leidd verður til lykta í dag með úrslitaleikjum kvenna og karla í Schenkerhöllinni á Ásvöllum.

Framarar stíga sigurdans eftir sigur á Val í undanúrslitum Coca Cola-bikarsins á fimmtudagskvöld. Fram leikur í dag fimmta árið í röð í úrslitum keppninnar. Mynd/HSÍ


Tvö sterkustu kvennalið landsins mætast í úrslitaleiknum í Coca Cola-bikar kvenna, ríkjandi bikarmeistarar Fram annarsvegar og Íslands- og deildarmeistara KA/Þórs hinsvegar. Lið sömu félaga og mættust í úrslitaleik í keppninni í mars 2020. Þá þótti mörgum óvænt að KA/Þórsliðið væri komið í undanúrslit, hvað þá úrslit. Segja má um tap KA/Þórs fyrir Fram í úrslitaleiknum 2020, fall er faraheill. Á keppnistímabilinu sem tók við 2020/2021 hreinsaði KA/Þórsliðið borðið og vann alla þrjá bikarana sem keppt var um, meistararar meistaranna, deildarmeistarar í Olísdeildinni og loks Íslandsmeistaratitilinn.


Eftir standa sigurlaunin í Coca Cola-bikarnum frá síðasta tímabili. Til þeirra horfa leikmenn og þjálfarar KA/Þórs með augum löngunar, af skiljanlegum ástæðum. Hinsvegar er jafn víst að leikmenn og þjálfarar Fram gefa sinn hlut ekki eftir án átaka. Fram er sigusælasta lið bikarkeppninnar, hefur unnið sextán sinnum eftir 22 úrslitaleiki. Þar af hefur Fram leikið til úrslita síðustu fimm ár. Næsta víst er að það mun sjóða á keipum í Schenkerhöllinni eftir klukkan 13.30 í dag.

Valsmenn glaðir á góðri stund. Fara þeir heim með annan bikar frá Ásvöllum í dag eða verður partý í Safamýri? Mynd/Björgvin Franz


Í karlaflokki leiða Reykjavíkurliðin Valur og Fram saman hesta sína í úrslitaleik bikarkeppninnar í fjórða sinn í sögunni. Hið ógnarsterka lið Vals sem rassskellti leikmenn Aftureldingar í undanúrslitum, 32:21, og seigir og baráttuglaðir leikmenn Fram sem unnu sannfærandi sigur á Stjörnunni í undanúrslitaleik seint í gærkvöld, 28:25.


Það er svo sannarlega ástæða til þess að bregða sér í Schenkerhöllina á Ásvöllum í dag og byrja jafnvel á hressingu á Sportbarnum Tjarnarvöllum 3 í næsta húsi við Schenkerhöllina.

Miðasala á leikina tvo fer fram á appinu Stubbur.


Kl. 13.30: Fram – KA/Þór, úrslitaleikur í kvennaflokki.
Kl. 16: Valur – Fram, úrslitaleikur karla.
Báðir leikir verða sýndir á RÚV. Einnig verður textalýsing á handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -