Önnur umferð undanúrslita úrslitakeppni Olísdeildar kvenna fer fram í kvöld með tveimur leikjum. Framarar sem töpuðu illa fyrir Haukum, 30:18, í fyrstu umferð á laugardaginn, sækja Hauka heim á Ásvelli klukkan 18.
Rétt eftir að viðureigninni á Ásvöllum lýkur tekur við leikur ÍR og Vals í Skógarseli. ÍR-ingar eins og Framarar verða að herða upp hugann eftir fyrstu umferðina. ÍR-liðið fékk sannkallaða útreið í heimsókn sinni til Vals á laugardaginn, 33:12, eftir að hafa aðeins skorað þrjú mörk í fyrri hálfleik.
Enn rekast á leikir undanúrslita og umspilsins
Auk leikjanna tveggja í undanúrslitum Olísdeildar kvenna þá mætast Stjarnan og Afturelding í þriðja sinn í úrslitum umspils Olísdeildar kvenna einnig í kvöld.
Niðurröðun umspilsins Olísdeildar karla og kvenna hefur verið eindæmum í vor og nær allir leikir verið settir ofan í undanúrslitaleiki Olísdeildar karla og kvenna. Reyndar eru dagarnir ekki ótakmarkaðir sem eru lausir til leikja en sannarlega verður lítið um að vera annað kvöld, miðvikudag og á fimmtudag eftir að ekkert varð af fimmtu viðureign FH og Fram í undanúrslitum karla.
Stjarnan og Afturelding mætast í Hekluhöllinni klukkan 19.30. Liðin hafa unnið sinn leikinn hvort til þess. Vinna þarf þrjá leiki til þess að öðlast sæti í Olísdeild kvenna á næstu leiktíð.
Leikir kvöldsins
Olísdeild kvenna, undanúrslit, annar leikur:
Ásvellir: Haukar – Fram (1:0), kl. 18.
Skógarsel: ÍR – Valur (0:1), kl. 19.30.
Umspil Olísdeildar kvenna, úrslit, þriðji leikur:
Hekluhöllin: Stjarnan – Afturelding (1:1), kl. 19.30.
- Allir leikir kvöldsins verða sendir út á Handboltapassanum.