Í kvöld er komið að því að hreinsa upp eftir keppnistímabilið, þ.e. taka til við leiki sem hefur orðið að fresta fyrr á tímabilinu. Stundum kallaðir uppsópsdagur hjá mótanefnd HSÍ.
Kvennalið ÍBV í Olísdeildinni og karlalið Þórs á Akureyri hafa dregist aftur úr öðrum leikjum af ýmsum ástæðum. Bæði lið verða þar af leiðandi í eldlínunni í kvöld. ÍBV sækir Íslandsmeistara KA/Þórs heim í KA-heimilið klukkan 18.
ÍBV er að berjast við að ná fjórða sæti deildarinnar úr höndum Hauka og tekst það a.m.k. í bili með sigri í KA-heimilinu. Að sama skapi er mikil stemning innan herbúða KA/Þórs eftir sigurinn á Fram á laugardaginn. Takist KA/Þór að leggja ÍBV verður aðeins tveggja stiga munur á KA/Þór og efsta liðinu, Fram, þegar hvort lið á þrjá leiki eftir óleikna.
Ræður miklu um framhaldið
Þórsarar taka á móti Fjölni klukkan 19 í Höllinni á Akureyri. Um er að ræða viðureign sem getur haft mikil áhrif á stöðu efstu liða deildarinnar á endasprettinum. Fjölnir hefur tapað sex stigum í deildinni fram til þess. Takist Fjölnismönnum að vinna í Höllinni á Akureyri jafna þeir metin við Hörð sem situr í efsta sæti Grill66-deildarinnar. Að sama skapi blanda Þórsarar sér hressilega í hóp fjögurra efstu liða deildarinnar vinni þeir viðureignina. Þar með verður aðeins þriggja stiga munur á forystusauðum augnabliksins, Herði og Þór. Þór mun auk þess þá enn eiga leik til góða. Þess utan mætast Þór og Hörður í síðustu umferð Grill66-deildarinnar föstudaginn 8. apríl.
Eyjamenn sækja heim særða FH-inga
Karlalið ÍBV kemur í heimsókn í Kaplakrika og mætir FH-ingum sem er særðir eftir tap á heimavelli á sunnudagskvöld. Nokkuð sem leikmenn FH vilja ekki að eigi sér stað. Allra síst tvisvar í röð.
Aðeins munar einu stigi á FH og ÍBV eins og sést í stöðutöflunni en hlekkur á hana er birtur hér fyrir neðan. FH getur farið upp að hlið Vals í öðru sæti með sigri. ÍBV getur hinsvegar haft sætaskipti við FH með sigri. Jafntefli mun vitanlega skilja liðin eftir í sömu sætum eins og staða þeirra er um þessar mundir.
Olísdeild karla:
Kaplakriki: FH – ÍBV, kl. 18 – sýndur á Stöð2sport.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild karla er að finna hér.
Olísdeild kvenna:
KA-heimilið: KA/Þór – ÍBV, kl. 18 – sýndur á KAtv.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna er að finna hér.
Grill66-deild karla:
Höllin Ak.: Þór Ak – Fjölnir, kl. 19.
Stöðu og næstu leiki í Grill66-deild karla er að finna hér.
Handbolti.is ætlar að fylgist grannt með leikjum kvöldsins.