Tveir síðustu leikir áttundu umferðar Olísdeildar kvenna fara fram í dag áður en flautað verður til leiks í síðari vináttulandsleik Íslands og Færeyja í handknattleik karla í Laugardalshöll klukkan 17.30.
ÍR-ingar sækja Aftureldingu heim að Varmá klukkan 13. Einni klukkustund síðar hefja leikmenn ÍBV og KA/Þórs leik í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum.
ÍR og Afturelding komu upp úr Grill 66-deild kvenna í vor. Liðin mættust í 1. umferð deildarinnar snemma í september í Skógarseli. ÍR-inga höfðu betur, 31:26. Á sama tíma þennan laugardag í september sótti ÍBV liðsmenn KA/Þórs heim og unnu örugglega, 29:20. Síðan hefur talsvert vatn runnið til sjávar.
Íslenska landsliðið vann öruggan sigur á færeyska landsliðinu í Laugardalshöll í gærkvöld, 39:24, að viðstöddum um 1.800 áhorfendum í góðri stemningu. Reikna má með að svipað verði upp á teningnum í dag.
Leikir dagsins
Olísdeild kvenna – 8. umferð:
Varmá: Afturelding – ÍR, kl. 13.
Vestmannaeyjar: ÍBV – KA/Þór, kl. 14.
Báðir leikir verða sýndir gegnum handboltapassa HSÍ.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.
Vináttulandsleikur:
Laugadalshöll: Ísland – Færeyjar, kl. 17.30.
Miðasala á leikina er hér.
Leikurinn verður beint í opinni dagskrá á aðalrás Sjónvarps Símans.