Ekkert lát er á úrslitakeppni Olísdeildar karla í handknattleik né umspilinu um sæti í sömu deild. Tvær viðureignir fara fram í kvöld í hvorri keppni.
Fram, sem er í kjörstöðu í rimmu sinni við FH, sækir Íslandsmeistarana heim í Kaplakrika klukkan 19.30. FH verður að vinna leikinn til þess að halda lífi í einvíginu. Fram vann tvo fyrstu leikina og mun með sigri í kvöld geta tryggt sér sæti í úrslitum Íslandsmótsins í fyrsta sinn í 11 ár. Takist FH að hrista af sér slenið og vinna kemur til fjórðu viðureignar liðanna á heimvelli Framara á sunnudaginn.
Leikmenn Gróttu og Selfoss eru nánast á byrjunarreit með einn vinning hvorir í úrslitum umspils Olísdeildar karla. Vinna þarf þrjá leiki til að öðlast sæti í deildinni á næstu leiktíð.
Grótta vann heimaleik sinn fyrir viku, 40:31. Selfyssingar svöruðu fyrir sig á heimavelli á mánudagskvöld, 31:29.
Leikir kvöldsins
Olísdeild karla, undanúrslit, þriðji leikur:
Kaplakriki: FH – Fram (0:2), kl. 19.30.
Umspil Olísdeildar karla, úrslit, þriðji leikur:
Hertzhöllin: Grótta – Selfoss (1:1), kl. 19.30.
- Báðir leikir verða sendir út á Handboltapassanum. Einnig verður hægt að fylgjast með stöðuuppfærslu á HBStatz.