Dagur Árni Heimisson, handknattleiksmaður úr KA, er í úrvalsliði Evrópumóts 18 ára landsliða karla í handknattleik sem lauk í Podgorica í Svartfjallalandi í kvöld með sigri Svía á Dönum í framlengdum úrslitaleik, 37:36. Í mótslok var úrvalslið mótsins tilkynnt og þar átti Ísland sinn fulltrúa í Degi Árna sem var driffjöður íslenska landsliðsins sem hafnaði í fjórða sæti.
Hann stýrði leik íslenska liðsins af myndugleika og skoraði auk þess 52 mörk og varð sjöundi markahæsti leikmaður mótsins ásamt Þjóðverjanum Jan Mudrow.
Dagur Árni var einnig valinn í úrvalsliðið að loknum Opna Evrópumóti 17 ára landsliða á síðasta sumri.
Annað sinn í sumar
Þetta er í annað sinn í sumar sem íslenska handknattleikfólkið af yngri kynslóðinni er valið í úrvalslið stórmóts. Elín Klara Þorkelsdóttir var valin í úrvalslið heimsmeistaramóts 20 ára landsliða kvenna sem fram fór í Skopje í lok júní.
Rakleitt til Ungverjalands
Dagur Árni heldur nú strax eftir EM ásamt félögum sínum úr KA og U18 ára landsliðinu, Jens Braga Bergþórssyni og Magnúsi Degi Jónatanssyni, til móts við meistaraflokkslið KA sem verður næstu daga í æfingabúðum í Ungverjalandi, eftir því sem næst verður komist.