Handknattleiksmennirnir Dagur Fannar Möller og Max Emil Stenlund hafa skrifað undir nýja samninga við Fram. Samningarnir gilda fram til ársins 2028.
Dagur Fannar, fæddur 2003, er öflugur línumaður sem er nú að spila sitt annað tímabil með Fram. Hann hefur vaxið mikið í sínu hlutverki í liðinu og átti meðal annars stóran þátt í því að tryggja sigur Fram í átta liða úrslitum Powerade-bikarsins gegn sínum gömlu félögum í Val fyrr í vetur.
Max Emil, fæddur 2007, er uppalinn hjá Fram og hefur leikið upp alla yngri flokka félagsins. Þrátt fyrir ungan aldur er hann að taka þátt í sínu öðru keppnistímabili með meistaraflokki samhliða því að vera lykilmaður sem hægri skytta í U-liði Fram og 3. flokki.
Leggja hart að sér
„Það er ánægjulegt að framlengja samninga við Dag Fannar og Max Emil. Báðir eru þeir öflugir liðsmenn sem leggja hart að sér innan sem utan vallar og það verður gaman að sjá þá vaxa enn frekar í sínum hlutverkum innan liðsins á komandi árum,“ er haft eftir Einari Jónssyni þjálfara Fram í tilkynningu frá handknattleiksdeild Fram.