- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danir í undanúrslit EM og hreppa einnig HM-farseðil

Danir fagna en leikmenn hollenska landsliðsins ganga hnípnar af leikvelli. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -


Danska landsliðið mætir heimsmeisturum Frakka í undanúrslitum Evrópumóts kvenna á föstudaginn. Danir kræktu í síðasta sætið í undanúrslitum í kvöld með sigri á Hollendingum í næst síðasta leik milliriðils tvö í Vínarborg, 30:26. Með sigrinum tryggði Danmörk sér einnig farseðilinn á HM á næsta ári. Þrjú efstu liðin á EM auk heimsmeistara Frakklands fá sjálfkrafa þátttökurétt á HM sem haldið verður í Hollandi og Þýskalandi eftir ár.

Í hinni viðureign undanúrslita á föstudaginn mætast Noregur og Ungverjaland.


Holland leikur við Svíþjóð um 5. sæti mótsins kl. 14 á föstudaginn. Sá leikur hefur þó ekki mikla þýðingu lengur vegna þess að HM sætunum þremur hefur verið ráðstafað eftir úrslit leiks Danmerkur og Hollands.

Anna Opstrup Kristensen markvörður danska landsliðsins ver eitt af fimm skotum sínum frá Zoë Sprengers vinstri hornakonu hollenska landsliðsins í leiknum í kvöld. Ljósmynd/EPA

Danir voru með yfirhöndina frá upphafi viðureignarinnar við Hollendinga í kvöld. Munaði eki síst um að Anna Opstrup Kristensen markvörður danska landsliðsins var frábær í markinu á sama tíma og hollensku markverðirnir náðu sér ekki á strik.

Danska landsliðið var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 15:13. Hollendingar héldu í við Dani framan af fyrri hálfleik. Eftir það kom munurinn á liðunum skýrlega í ljós. Danska liðið var borið uppi af fleiri leikmönnum sem náðu sér á flug auk þess sem Kristensen var áfram vakandi í markinu. Danir náðu mest sex marka forskoti í síðari hálfleik.


Anne Mette Hansen var markahæst í danska liðinu með sjö mörk. Helena Elver Hagesø var frábær í síðari hálfleik. Hún skoraði fimm mörk. Trine Jensen Østergaard og Michala Elsberg Møller skoruðu fjögur mörk hver. Kristensen varði 15 skot, 37,5%.

Dione Housheer var markahæst í hollenska liðinu með 10 mörk, þar af sjö í fyrri hálfleik. Angela Malestein var næst á eftir með fjögur mörk.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -