Danir komust inn á sigurbraut á nýjan leik á Evrópumótinu í handknattleik karla í kvöld þegar þeir unnu Frakka, 32:29, í frábærum handboltaleik í Jyske Bank Boxen. Danska landsliðið er þar með komið á blað í milliriðlakeppninni með tvö stig eins og Frakkar, Norðmenn og Portúgalar. Þjóðverjar hafa fjögur stig en Spánverjar eru tómhentir, enn sem komið er.
Danska landsliðið mátti vart við því að tapa viðureigninni við Frakka í kvöld til þess að halda í vonina um sæti í undanúrslitum.
Frakkar voru á undan að skora í 40 mínútur í viðureigninni. Þeir voru marki yfir, 12:11, í hálfleik.
Danir sýndu styrk sinn, ekki síst á síðustu 10 mínútunum þegar þeir komust yfir í annað sinn í leiknum, 25:23 með fjórum mörkum í röð sex mínútum fyrir leikslok. Frökkum tókst ekki að komast yfir eftir það. Þeir minnkuðu muninn í eitt mark, 29:28, þegar þrjár mínútur voru eftir af leiktímanum. Eftir það voru Danir beittari, jafnt í vörn sem sókn í þéttpakkaðri keppnishöllinni, Jyske Bank Boxen í Herning á Jótlandi.

Lasse Andersson, Emil Jakobsen og Mathias Gidsel voru öflugir í sóknarleiknum á lokakaflanum en þeir Magnus Saugstrup og Simon Hald voru klettar í vörninni. Markvörðurinn Emil Nielsen varði nokkur mikilvæg skot þegar mest á reyndi.
Gidsel skoraði níu mörk og Simon Pytlick átta. Jakobsen var næstur með sex mörk.
Aymeric Minne skoraði sjö mörk fyrir franska liðið og Hugo Descat fimm.
Danir leika við Spánverja á laugardaginn, Frakkar mæta Portúgölum og Þýskaland og Noregur eigast við.


