Danska landsliðið leikur til úrslita í fjórða sinn í röð á heimsmeistaramóti í handknattleik karla á sunnudaginn kl. 17. Danska landsliðið kjöldró portúgalska landsliðið í síðari hálfleik í undanúrslitaleiknum í Unity Arena í Bærum í Noregi í kvöld og unnu með 13 marka mun, 40:27, eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik, 20:16.
Þetta var áttundi sigur Dana á mótinu sem hafa að jafnaði unnið leiki sína með 14 marka mun að jafnaði.
Um leið var þetta fyrsta tap Portúgals sem unnið hafði sex leiki og gert eitt jafntefli.
Danir mæta Króötum undir stjórn Dags Sigurðssonar í úrslitaleiknum. Portúgal leikur við Frakkland í viðureigninni um bronsverðlaun á sunnudag klukkan 14.
Þrátt fyrir erfiðar upphafsmínútur í kvöld þá tókst portúgalska liðinu, sem var í fyrsta sinn í undanúrslitaleik á stórmóti í handknattleik karla, að vinna sig inn í leikinn í kvöld. Átta mínútum fyrir lok fyrir hálfleiks var einvörðungu eins marks munu, 13:12, Dönum í vil.
Sýning í síðari hálfleik
Í upphafi síðari hálfleiks steig danska landsliðið á bensíngjöfina. Vörnin var frábær og Emil Nielsen skellti í lás í markinu. Hann stöðvaði fimm sóknir Portúgala í röð. Eftir 13 mínútna leik var forskot Dana orðið tíu mörk og vonleysi farið að gera vart við sig hjá leikmönnum portúgalska liðsins. Nielsen varði og hvert hraðaupphlaupið á eftir öðru fylgdi í kjölfarið.
Munurinn jókst ennþá meira og var mestur 14 mörk. Um hreina sýningu í handbolta var að ræða. Mathias Gidsel, sennilega besti handknattleiksmaður heims um þessar mundir, og Rasmus Lauge voru frábærir auk Nielsen í markinu.
Þegar leið inn á síðustu 10 mínútur leiksins fór Nikolaj Jacobsen að hvíla nokkra leikmenn fyrir úrslitaleikinn sem væntanlega var kærkomið. Reyndar gerði Paulo Pereira þjálfari portúgalska liðsins það sama. M.a. léku Costa bræðurnir Francisco og Martim ekkert þegar ljóst var að taflið var gjörtapað.
Gidsel langmarkahæstur
Gidsel skorði 9 mörk fyrir danska landsliðið og gaf þrjár stoðsendingar. Hann hefur þar með skoraði 64 mörk í keppninni, 14 mörkum fleiri en Frakkinn Dika Mem sem er í öðru sæti.
Lauge skoraði átta mörk átti einnig þrjár stoðsendingar. Simon Pytlick, Niclas Kirkeløkke og Emil Jakobsen skoruðu fimm mörk hver. Emil Nielsen markvörður varði 15 skot, 38% og gaf fimm stoðsendingar.
António Areira var markahæstur í portúgalska liðinu með fimm mörk og Victor Iturriza var næstur með fjögur mörk.