- Auglýsing -
- Auglýsing -

Danskur sérfræðingur bendir á Aron og Arnór

Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari Barein gjörþekkir danskan handknattleik. Mynd/EPA

Aron Kristjánsson og Arnór Atlason eru tveir af þremur þjálfurum sem danski handknattleiksþjálfarinn, Bent Nyegaard, og núverandi sérfræðingur um handknattleiksíþróttina hjá TV2 í Danmörku, telur að henti danska meistaraliðinu GOG best um þessar mundir.

Nyegaard, sem þjálfaði ÍR og Fram snemma á níunda áratug síðustu aldar, blandar sér eins og fleiri sérfræðingar í umræðuna um næsta þjálfara GOG í pistli í gær. Efstur á lista er Svisslendingurinn Andy Schmid leikmaður HC Kriens í Sviss og verðandi landsliðsþjálfari karlalandsliðs Sviss að ári liðnu.

Næstan á eftir Schmid nefnir Nyegaard til sögunnar Aron Kristjánsson sem er öllum hnútum kunnugur í dönskum handknattleik. Aron lék með Skjern Holstebro á sínum tíma og náði síðan frábærum árangri með Skjern, Kolding-Köbenhavn og Aalborg Håndbold. Aron nýtur mikillar virðingar í dönskum handknattleik og er hokinn reynslu af þjálfun félagsliða og landsliða. Aron er að mati Nyegaard tilvalinn þjálfari til að þróa lið GOG áfram. Aron er landsliðsþjálfari Barein og starfsmaður Hauka eftir að hann lét af þjálfun karlaliðs félagsins fyrir ári.

Arnór Atlason tilvonandi þjálfari Tvis Holstebro t.h. ásamt , Søren Hansen. Mynd/Tvis Holstebro

Arnór Atlason er e.t.v. fjarlægasti kosturinn af þremur. Hann tekur við þjálfun karlaliðs TTH Holstebro í sumar. Forsvarsmenn félagsins hafa beðið síðasta árið eftir Arnóri en hann skrifaði undir samning við þá síðla á síðasta sumri. Harla ólíklegt er talið að stjórnendur Holstebro séu tilbúnir að gefa frá sér óskaþjálfarann sem þeir hafa beðið eftir í nærri ár og er ætlað að endurreisa liðið sem hefur átt erfitt uppdrátar.

Þekkir hvern krók og kima

Arnór gjörþekkir hvern krók og kima í dönskum handknattleik og hefur unnið afar gott starf sem aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold síðustu fimm árin með Stefan Madsen sem tók við þjálfun liðsins sumarið 2018 af Aroni Kristjánssyni. Einnig hefur Arnór vakið verðskuldaða athygli sem þjálfari yngri landsliða Danmerkur á undanförnum árum.

Arnór hefur verið nefndur sem aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins ef Snorri Steinn Guðjónsson tekur við starfinu eins og margt bendir til. Snorri Steinn hefur einnig verið orðaður við þjálfarastarfið hjá GOG þótt Nyegaard nefndi hann ekki til sögunnar.

- Auglýsing -
- Auglýsing -

Nýjustu fréttir

- Auglýsing -