Mors-Thy Håndbold varð í dag nokkuð óvænt danskur bikarmeistari í handknattleik karla þegar liðið vann Danmerkurmeistara og silfurlið Meistaradeildar Evrópu, Aalborg Håndbold, 32:31, í hörkuspennandi og skemmtilegum úrslitaleik í Jyske Bank Boxen í Herning.
Staðan var jöfn að loknum fyrri hálfleik, 17:17, en jafnt var á næstum öllum tölum í leiknum. Leikmenn Aalborg áttu síðustu sókn leiksins en tókst ekki að jafna metin og kreista út framlengingu.
Þetta er fyrsti stóri titilll Mors-Thy í sögunni en liðið varð til fyrir 14 árum þegar félögin Nykøbing Mors og Thisted gengu í eina sæng. Liðið hafnaði í 10. sæti dönsku úrvalsdeildinnar á leiktíðinni. Það hefur hinsvegar gert það gott í bikarkeppninni og vann Skjern í gær og meistara Aalborg í dag.
Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg Håndbold sem lék í dag sinn þriðja úrslitaleik á einni viku. Á sunnudaginn fyrir viku lék liðið til úrslita í Meistaradeild Evrópu í fyrsta skipti í sögu sinni. Á miðvikudaginn varð liðið danskur meistari eftir sigur á Bjerringbro/Silkeborg í oddaleik og tapaði síðan naumlega í úrslitaleik bikarkeppninnar í dag að viðstöddum 7.000 áhorfendum í Jyske Bank Boxen í Herning.
- Verður handboltinn færður á Vetrarólympíuleika eða sleginn út af borðinu?
- Þórir í fótspor Bogdans, Guðmundar Þórðar og Alfreðs
- Aron og Elvar fara varlega í sakirnar – fyrst og fremst varúðarráðstöfun
- Palicka semur við Íslendingaliðið til tveggja ára
- Alfreð fékk slæmar fréttir þegar undirbúningur hófst