Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handknattleik, átti stórleik í kvöld þegar lið hennar, BSV Sachsen Zwickau vann langþráðan sigur í þýsku 1. deildinni í handknattleik þegar HSG Bensheim/Auerbach kom í heimsókn, 26:22. Zwickau-liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12.
Eyjakonan fór á kostum í leiknum. Hún var tekin úr umferð síðustu 14 mínúturnar og var í leikslok valin maður leiksins.
Díana Dögg skoraði sjö mörk, átta þrjár stoðsendingar, stal boltanum í tvígang, vann tvö vítaköst og varði eitt skot í vörninnni. Til viðbótar var tveimur leikmönnum Bensheim/Auerbach vísað af leikvelli eftir misheppnaðar tilraunir við að koma böndum yfir Díönu Dögg.
Sigurinn í dag var sá þriðji hjá BSV Sachsen Zwickau í deildinni en liðið kom upp í 1. deild á síðasta vori. BSV Sachsen Zwickau færðist upp úr fallsæti með sigrinum og upp í 12. sæti.
Næsti leikur BSV Sachsen Zwickau verður eftir viku á útivelli gegn Leverkusen. BSV Sachsen Zwickau vann fyrri viðureignina á heimavelli sínum fyrr í vetur. Leverkusen er í 10. sæti og hefur verið í mesta basli á leiktíðinni.