Ingvar Guðjónsson og Sigurjón Þórðarson verða í eldlínunni í TM-höllinni í kvöld þegar þeir dæma upphafsleik Olísdeildar kvenna í handknattleik á milli Stjörnunnar og FH. Þeir ætla að flauta til leiks klukkuan 17.45. Reynir Stefánsson, formaður dómaranefndar HSÍ, verður eftirlitsmaður á viðureigninni.
Anton Gylfi Pálsson og Magnús Kári Jónsson dæma hinn leik kvöldsins í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna þegar Fram og HK eigast við í Framhúsinu. Leikurinn hefst klukkan 18.30. Kristján Gaukur Kristjánsson verður eftirlitsmaður.
Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson dæma hinn leikinn sem fram fer í TM-höllinni í kvöld en þá mætast karlalið Stjörnunnar og Selfoss. Hinn þrautreyndi dómari, Gísli H. Jóhannsson, verður eftirlitsmaður. Leikurinn hefst klukkan 20.30.
Loks verða hinir ungu og efnilegu dómarar, Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson á ferðinni í KA-heimilinu til að dæma viðureign KA og Fram í Olísdeild karla. Þeim er uppálagt að flauta til leiks klukkan 19.30. Guðjón L. Sigurðsson, fyrrverandi alþjóða dómari og eitt sinn formaður dómaranefndar HSÍ, verður eftirlitsmaður nyrðra.
Báðir leikirnir í TM-höllinni verða sýndir í beinni útsendingu á Stöð2 sport. KA mun senda viðureign sína við Fram í Olísdeild karla út á youtube rás sinni.