Landsliðsmaðurinn Kristján Örn Kristjánsson, Donni, hefur samið við danska úrvalsdeildarliðið Skanderborg AGF til tveggja ára. Hann kemur til félagsins frá PAUC í Frakklandi í sumar að lokinni fjögurra ára dvöl. Þar áður lék Donni með ÍBV og Fjölni hér á landi en síðarnefnda liðið er hans uppeldisfélag.
Koma Donna, sem er 26 ára gamall, er liður í sókn Skanderborg AGF á næstu leiktíð. Forráðamenn Skanderborg AGF hafa í hyggju að blása í herlúðra fyrir næstu leiktíð og gera atlögu að liðunum í efri hluta dönsku úrvalsdeildarinnar.
Skanderborg AGF er í níunda sæti úrvalsdeildar þegar ein umferð er eftir og ljóst er að sæti í úrslitakeppninni um meistaratitilinn er runnið úr greipum leikmanna.
Donni á að baki 33 A-landsleiki sem hann hefur skoraði í 61 mark. Síðast var Donni í landsliðshópnum sem tók þátt í Evrópumótinu í Þýskalandi í janúar. Fljótlega að mótinu loknu gekkst hann undir aðgerð vegna meiðsla á öxl og mun vera á góðum batavegi.
Skanderborg er bær nokkru sunnan við Árósa. Skanderborg AGF varð til fyrir þremur árum þegar karlalið Skanderborg Håndbold og Århus Håndbold gengu í eina sæng.