- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Dönsku meistararnir reka þjálfarann eftir tvo mánuði í starfi

Mynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Forráðamenn danska meistaraliðsins í karlaflokki í handknattleik, GOG, sögðu þjálfaranum Ian Marko Fogh upp störfum í hádeginu í dag. Fogh tók við þjálfun GOG um miðjan júlí eftir miklar vangaveltur um það hver tæki við af Nicolej Krickau sem var ráðinn til Flensburg-Handewitt í Þýskalandi.

Ekki er liðinn sólarhringur síðan GOG vann Celje í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu á heimavelli, 38:36.

Efasemdir frá upphafi

Uppsögnin kemur mörgum í opna skjöldu, ekki síður en ráðningin á sínum tíma. Við hana settu margir spurningamerki því þrátt fyrir góðan feril sem leikmaður hafði Fogh ekki skarað fram úr sem þjálfari. Hermt er að uppsögnin sé vegna ágreinings á milli þjálfarans og stjórnar m.a. um daglega stjórn liðsins.

GOG, varð danskur meistari í vor og einnig árið áður. Liðið vann meistarakeppnina í lok ágúst en hefur síðan aðeins fengið þrjú stig af sex mögulegum í fyrstu þremur umferðum deildarkeppninnar. GOG hefur ekki þótt hafa leikið eins vel og síðustu ár en á móti kemur að nokkrir leikmenn réru á önnur mið í sumar, m.a. með þjálfaranum til Flensburg.

Aðstoðarmaður tekur við

Aðstoðarmaður Fog, Mikkel Voigt, stýrir GOG út keppnistímabilið, segir í tilkynningu. Honum til halds og trausts verður Thomas Brandt Nyegaard. Ekki stendur til að kalla inn framtíðarþjálfara á miðju keppnistímabili.

Kemur Íslendingur til greina?

Snorri Steinn Guðjónsson, Aron Kristjánsson og Arnór Atlason voru nefndir í dönskum fjölmiðlum í vor þegar GOG leitaði að þjálfara. Heimildir herma að Snorri Steinn hafi heyrt frá forráðamönnum GOG áður en hann var ráðinn landsliðsþjálfari Íslands í byrjun sumars. Snorri Steinn lék með GOG um árabil.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -